Eimreiðin - 01.10.1954, Page 34
266
LEIKRITASKÁLDIÐ E. O’NEILL
EIMREIÐIN
öllu vamað þess, sem O’Neill kallar sál, enda þykist austræna
kóngsdóttirin við og við sjá þessari sál bregða fyrir. En neist-
inn er ekki sterkari en svo, að hann kafni ekki til fulls í
aurahyggju Marcós, og á löngu, hættulegu ferðalagi kemst
hann aldrei svo langt að kyssa kóngsdótturina austrænu,
þótt augu hennar freisti hans daglega. f þessum leik er það
austræna spekin um lífið, sem sættir O’Neill við tilveruna,
þar sem hin vestræna menning í gervi Marcós er steindauð.
The Great God Brown (1926), sem í hversdagslífi heitir
William Brown, er annar Marcó frá, andlaus amerískur borg-
ari, en vel stæður og vel metinn. Andstæða hans í leiknum
er Dion Anthony, sem í aðra röndina er Díónysos-satýr-
Mefistofeles, en í hina dýrlingurinn St. Anthony. í skapi hans
togast djöfullinn og dýrlingurinn á í sífellu, og notar hann
grímu til að tákna Mefisto-eðli sitt og tekur hana sjaldan
ofan, aldrei í sambúð við konu sína. Eins og O’Neill er Dion
viðkvæmur listamaður og hefur aldrei náð sér eftir hrekk,
er William Bi'own gerði honum af öfund, er þeir voru strákar
báðir. Hjónabandið hjálpar honum ekki, því að konan þolh’
ekki að sjá hann grímulausan. Fyrir utan drykkinn er helzt
huggunar að leita hjá hóru, sem táknar móður jörð; bæði
hann og The Great God Brown finna huggun hjá henni: hún
spekir bæði listamanninn og athafnamanninn við brjóst sín.
Leikurinn er of flókinn til þess að fara lengra út í hann, en
þess verður að geta, að þegar Dion deyr, tekm' Brown bæði
konu hans og grímu, en verður við það tvískiptur og óham-
ingjusamur, þar til hann deyr við brjóst jarðar.
Enginn leikur O’Neills er jafn-hlaðinn lífsglaðri trú í anda
Nietzsches og Lazarus Laughed (1927). Lazarus er Dionysos,
og þegar hann rís frá dauðum hefur hann þá sögu að segja,
að enginn dauði sé til, allt sé líf og guð sé hlæjandi guð-
Sjálfur er hann síhlæjandi og tekur öllum hlutum fagnandi,
er bera honum að höndum. Að sjálfsögðu fylgja lærisveinar
hans honum hlæjandi í dauðann, og þeir hlæja ekki af hreysti,
eins og fornmenn, heldur af gleði með lífið og tilveruna,
hvort sem hún birtist þeim sem líf eða dauði. I engum leik
er jafnmikið af boðskap Zarathustras, spámanns Nietzsches,
en eftir það hætti O’Neill að boða trú Díónýsosar.