Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Page 19
KRISTÍN INDRIÐADÓTTIR
Steingrímur segir reynsluna hafa sannað að börn í skólum, þar sem viðfangs-
aðferðin (project method) sé notuð, afli sér víðtækari þekkingar því þau afli hennar
í ákveðnum tilgangi og af eigin áhuga. Sú þekking verði ekki frá neinum tekin. Með
samvinnu og samtölum lærist þeim „að lifa saman í bróðerni og samúð og vinna að
heill fjöldans" (bls. 10). Hvernig það heppnast er „bezti mælikvarðinn á menningu
og siðgæði þjóða og einstaklinga".
Steingrímur telur ekkert stuðla fremur að framförum í kennslu en rannsóknir.
Það sé nauðsynlegt að nota mælikvarða á kennslu og hann þakkar raunvísindunum
(tilraunum) að það sé nú mögulegt og þau hafi því í rauninni valdið stjórnar-
byltingu á skólasviðinu. Hann fullyrðir að með mælingum og samanburði á ýms-
um þáttum skólastarfsins, börnum og kennurum, megi meta frammistöðu skólanna
til þess annaðhvort að bæta ástandið eða hvetja þá sem eru á réttri leið. Til dæmis
sé skynsamlegt að raða í bekki eftir getu til þess að sama verkefnið sé ekki fengið
flestum jafnöldrum án tillits til þroskamunar. Steingrímur er sannfærður um að þau
börn, sem seinfærust séu, missi þá áhugann, sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna og
afburðabörnin hneigist til slæpingsháttar og óknytta. Þrjú ráð eru nefnd til að bæta
úr þessu:
- Að mæla þroskastig og hæfileika barna og flokka eftir mælingunni en ekki eftir
aldri.
- Að stofna sérstaka ogfámennari bekki fyrir þá sem eru frábrugðnir fjöldanum.
- Að skipta vetrinum upp í tvö tilfjögur tímabil til þess að þau börn sem dragast
aftur úr þurfi ekki að endurtaka heils árs nám.
„Menntun handa öllum" eiga að vera einkunnarorð í lýðfrjálsu landi segir Stein-
grímur (bls. 19). Barnaskóli upp að 12 ára aldri ætti að sjá um uppeldi í einum
farvegi. Þá lýkur barnsaldrinum og miklar breytingar verða á líkams- og sálarlífi
barna. Þá ætti unglingaskóli að taka við í annarri byggingu. Þar væri kennsla
greinaskipt, ýmist bókleg eða verkleg, og á hendi sérgreinakennara.
í öllum greinunum sem Steingrímur sendi að utan koma vel fram áhrif frá þeim
hugmyndum sem haldið var á lofti í Teachers College. Að hætti verkhyggjusinna
telur hann skólann gegna félagslegu hlutverki til að bæta mannlífið í fjölhyggju-
samfélagi. Til þess þarf skólinn að taka upp nýja starfshætti, byggða á sálfræðilegri
þekkingu á börnum. Stjórnarbyltinguna sjálfa kennir hann þó einkum við þær
vísindalegu mælingar sem völ var orðin á að nota í þágu uppeldis og skólastarfs,
ekki síst fyrir áhrif frá Edward Thorndike. Frá þeirri stefnu sem hann kynnti í
„Stjórnarbyltingunni" hvikaði hann aldrei en hélt áfram að útfæra hana í orði og
verki allan starfsferil sinn.
ÍSLENSKAR AÐSTÆÐUR UM 1920
Staða barnafræðslunnar og afstaða til skóla
Meðal íslendinga voru um 1920 ákaflega skiptar skoðanir um gildi barnaskóla-
göngu. Ýmsir vildu fremur efla heimafræðsluna í sveitum á grundvelli bænda-
menningarinnar gömlu. Flestir gátu sæst á að í bæjum og þéttbýli væru skólar
17