Tímarit lögfræðinga - 01.02.1995, Blaðsíða 91
nýju. Fulltrúinn sem kvað upp dóminn starfaði á ábyrgð sýslumannsins í Árnessýslu.
Lögreglan í Ámessýslu rannsakaði málið, en fulltrúinn sem kvað upp dóminn hafði
þau ein afskipti af málinu að hann sendi málið til fyrirsagnar ríkissaksóknara. I
dómi Hæstaréttar var fyrst tekið fram að það hefði lengi tíðkazt hér á landi að sami
maður hefði með höndum umboðs- og dómstörf í héraði þó að svo hafi ekki verið
um langt skeið í Reykjavík og nokkur breyting orðið á sumum öðrum stöðum.
Vitnað var í framangreinda dóma Hæstaréttar þar sem þessi skipan var talin standast
ákvæði stjómarskrár. Sögulegar og landfræðilegar ástæður liggi til þessarar skipunar
mála, en þetta samrýmist illa viðhorfum í ríkjum sem um annað byggja á svipuðum
réttarhugmyndum og Island.
í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. auglýsingu nr. 11/1954 segi þetta:
„Nú leikur vafi á um réttindi þegns og skyldur eða hann er borinn sökum um glæp-
samlegt athæfi, og skal hann þá njóta réttlátrar opinberrar rannsóknar innan hæfilegs
tíma fyrir óháðum, óhlutdrægum, lögmæltum dómstóli Ljóst sé að við full-
gildingu sáttmálans hafi ríkisstjórn talið íslenzkar réttarreglur í samræmi við hann
eins og sáttmálinn hafi þá verið skýrður; síðan hafi mörg ákvæði hans verið nánar
skýrð. Með fullgildingunni hafi Island að þjóðarétti gengizt undir að hlíta ákvæðum
sáttmálans. Með lögum nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í
héraði hafi sú stefna verið tekin að sömu menn skuli ekki fara með þessa tvo þætti
ríkisvaldsins.
Síðan sagði þetta í dómi Hæstaréttar:
„í málinu er á þetta að líta:
í stjómarskrá lýðveldisins er byggt á þeirri meginreglu, að ríkisvaldið sé þríþætt og
að sérstakir dómarar fari með dómsvaldið.
Þær sérstöku sögulegu og landfræðilegu aðstæður, sem bjuggu því að baki, að sömu
menn fara utan Reykjavíkur oftsinnis bæði með stjómsýslu og dómstörf, hafa nú
minni þýðingu en fyrr, meðal annars vegna greiðari samgangna en áður var.
Alþingi hefur sett lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem taka
eiga gildi 1. júlí 1992.
Island hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til að virða mannréttindasáttmála Evrópu.
Mannréttindanefnd Evrópu hefur einróma ályktað, að málsmeðferðin í máli [J] hafi
ekki verið í samræmi við 6. gr. 1. mgr. mannréttindasáttmálans, [sbr. reifan hæsta-
réttardóms 1985, bls. 1290, hér á undan].
Ríkisstjóm íslands hefur, eftir að fyrrgreindu máli var skotið til Mannréttindadóm-
stóls Evrópu, gert sátt við J [...], svo og annan mann sem kært hefur svipað málefni
með þeim hætti sem lýst hefur verið.
í 36. gr. 7. tl. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði segir meðal annars,
að dómari skuli víkja úr dómarasæti, ef hætta er á því, „að hann fái ekki litið óhlut-
drægt á málavöxtu“. Þessu ákvæði ber einnig að beita um opinber mál samkvæmt
15. gr. 2. mgr. laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála.
í máli þessu er ekkert fram komið, sem bendir til þess, að dómarafulltrúinn, sem
kvað upp héraðsdóminn, hafi litið hlutdrægt á málavöxtu. Hins vegar verður að
fallast á það með Mannréttindanefnd Evrópu, að almennt verði ekki talin næg trygg-
ing fyrir óhlutdrægni í dómstörfum, þegar sami maður vinnur bæði að þeim og lög-
reglustjóm.
Með tilliti til þess, sem rakið hefur verið, ber nú að skýra fyrrgreind lagaákvæði
þannig, að sýslumanninum í Ámessýslu og fulltrúa hans, sem kvað upp héraðs-
85