Tímarit lögfræðinga - 01.04.2000, Blaðsíða 35
Þegar ábyrgðarmaður samkvæmt gagnábyrgð hefur fullnægt skuldbindingu
sinni gagnvart aðalábyrgðarmanni öðlast hann endurkröfu á hendur aðalskuld-
ara eftir almennum reglum og eignast þau réttindi sem aðalábyrgðarmaður nýt-
ur. Tekur það bæði til tryggingarréttinda sem aðalábyrgðarmaður hefði getað
gengið að og endurkröfu sem hann getur öðlast á hendur öðrum ábyrgðar-
manni.53
4. ÁBYRGÐARKRAFAN
4.1 Almennt
Andlag kröfuábyrgðar er sú krafa á hendur aðalskuldara sem ábyrgðarmaður
hefur gengist í ábyrgð fyrir. Þessa skuldbindingu aðalskuldara verður því að
tilgreina í ábyrgðaryfirlýsingu. Vafi getur leikið á hvaða kröfur eru tryggðar
með ábyrgð en þegar hefur verið rætt um túlkun kröfuábyrgðar.54 Kröfu-
ábyrgðir geta verið með ýmsu móti og verður hér gerð grein fyrir helstu tilvik-
um sem koma til álita.
Ábyrgð getur lotið að einni eða fleiri kröfum sem þegar eru fyrir hendi eða
stofnast samhliða því að ábyrgðarmaður skuldbindur sig gagnvart kröfuhafa.
Einnig getur ábyrgð verið viðvarandi í þeirri merkingu að hún taki til þeirra
krafna á hendur aðalskuldara sem kunna að stofnast síðar og jafnvel þannig að
undir hana falli að auki þær kröfur sem þegar eru fyrir hendi. Þessu má nánar
lýsa þannig að skuldbinding ábyrgðarmanns með tíðkanlegri áritun á skuldabréf
er bundin við kröfu samkvæmt bréfinu. Ábyrgð hans fellur því endanlega niður
við greiðslu í samræmi við efni bréfsins. Þegar ábyrgðarmaður gengst aftur á
móti í ábyrgð gagnvart lánastofnun vegna hlaupareiknings aðalskuldara getur
53 Hans Viggo Godsk Pedersen: Kaution, bls. 36-37; Hans Verner Hojrup: Kaution, bls. 15; H.
Krag Jespersen: Kaution, bls. 66-67; Henry Ussing: Kaution, bls. 377-379.
54 Á þetta álitaefni reyndi í H 1996 1422 en þar voru málsatvik þau að M gekkst í ábyrgð 15. apríl
1992 fyrir greiðslu leigu samkvæmt fjármögnunarleigusamningi gerðum sama dag milli Lindar hf.
og G um hópferðabifreið. Sagði í ábyrgðaryfirlýsingunni að samningurinn væri gerður til 60
mánaða og að ábyrgð M næði til þeirra viðauka og skuldbreytinga sem á samningnum kynnu að
verða. Samningur um leigu á bifreiðinni var gerður 15. maí 1992 milli Lindar hf. og G. Hinn 4. maí
1993 gerðu sömu aðilar síðan nýjan samning um sömu bifreið með hærri fjárhæð og öðru greiðslu-
tímabili. Báðir samningamir voru ritaðir á samskonar eyðublað Lindar hf. og báru sama númer en
á þeim síðari stóð orðið „skuldbreyting“ neðan við fyrirsögn og númer samnings. I báðum
samningunum var vísað til ábyrgðar M sem tryggingar fyrir efndum G en hvorugur þeirra bar þess
merki að hafa verið kynntur M. I dómi Hæstaréttar sagði að efni skjalsins frá 4. maí 1993 bæri ekki
með sér slík tengsi við upphaflega samninginn að það gæti eingöngu talist fela í sér breytingu
greiðsluskilmála. Þannig hefði í yngra skjalinu verið lýst til fullnaðar skilmálum um leigu þar-
greindrar bifreiðar líkt og enginn samningur hefði áður verið gerður um sama efni. Að auki hefði
leigugjald verið talsvert hærra samkvæmt skjalinu frá 4. maí 1993 en í upphaflegum samningi og
leigutími skemmri. Var talið að kröfuhafi hefði ekki gefíð viðhlítandi skýringar á tengslum þessara
breytinga við upphaflega samninginn. Þegar þessa var gætt þótti verða að lfta á ráðstöfun G og
Lindar hf. frá 4. maí 1993 sem nýjan leigusamning. Skuldbinding M var ekki talin fela í sér svo
óyggjandi væri ábyrgð á skuldbindingum G samkvæmt nýjum samningi þótt gerður væri um sama
hlut. Var einnig talið að kröfuhafi gæti ekki reist kröfu á hendur M samkvæmt upphaflega
samningnum þar sem hann væri fallinn niður með seinni samningi Lindar hf. og G.
29