Tímarit lögfræðinga - 01.09.2003, Blaðsíða 4
sem starfa fleiri en einn dómari, að hafa áhrif á það hver umsækjenda bætist við
hópinn. Er þannig eftir föngum bægt frá þeirri hættu að ómálefnaleg sjónarmið
kunni að hafa áhrif á hæfnisumsagnir.
Hvað sem um þessar aðferðir má segja þá hlýtur tilgangur þeirra beggja að
vera sá að láta hinu pólitíska veitingarvaldi í té mat á hæfni umsækjenda í því
skyni að auðvelda því skipun þess umsækjanda sem hæfastur er og einnig að
veita aðhald til þess að draga sem mest úr þeirri hættu að veitingarvaldinu verði
misbeitt, en horfast verður í augu við það að sú hætta er alltaf fyrir hendi.
Dómarar fara með eina grein ríkisvaldsins af þremur og er því fengið mikið
vald í hendur. Skipun þeirra er ótímabundin og stendur jafn lengi og starfsævi
þeirra, nema þeir sjálfir kjósi annað eða verði að láta af störfum samkvæmt
dómi. Nauðsyn þess að með dómsvaldið fari hinir hæfustu lögfræðingar, sem til
þess eru fáanlegir á hverjum tíma, liggur í augum uppi. Og þegar talað er hér
um hina hæfustu lögfræðinga er átt við lögfræðinga sem hafa trausta, alhliða
þekkingu og yfirsýn yfir landslögin og hafa þá persónu til að bera sem staðið
getur undir þeirri virðingu og ábyrgð sem dómarastarfinu fylgir. Það hvort nýr
dómari á að koma úr röðum dómara, lögmanna, prófessora eða einhverra ann-
arra í þetta eða hitt skiptið er sjónarmið sent á lítinn rétt á sér og ætti að leggja
af. Það er einu sinni svo að dómarar verða að leysa úr öllum deilum, sem dóm-
stólunum berast með réttum hætti, og þótt einhver sérþekking á réttarfari, eða
evrópurétti eða störfum borgarfógeta, sem reyndar var lagður af fyrir rúmum
áratug, sé til bóta skiptir hún engum sköpum. Maður skyldi t.d. halda að hæsta-
réttardómarar til ára og áratuga ættu að vera farnir að kunna réttarfarið, hafi þeir
ekki kunnað það þegar þeir hófu störf, og sé því ekki nauðsyn á sérstakri hjálp
við það. Hin norræna hefð er sú, eins og einn ágætur Dani sagði, að dómarar
eru generalistar en ekki spesíalistar. Þegar um fjölskipaðan dóm er að ræða eins
og Hæstarétt, eiga allir dómarar sem sitja í máli að taka afstöðu til allra álitaefna
í málinu og verða því hver og einn að hafa þekkingu á þeim réttarreglum sem
við eiga, eða afla sér hennar.
Síðasta skipun hæstaréttardómara hefur vakið mikinn úlfaþyt sem enn er
ekki séð fyrir endann á. Það verður að segja í fullri hreinskilni að þessi úlfa-
þytur er ekki að ástæðulausu.
I unrsögn Hæstaréttar um umsækjendur um dómarastöðuna sem skipað var í
á dögunum kemur fram að þeir séu allir hæfir til þess að gegna embætti
hæstaréttardómara, en ekki mat lagt á það hver eða hverjir séu hæfastir. Verður
þó 4. ingr. 4. gr. dómstólalaga, sem vitnað var til hér að framan, varla skilin
öðruvísi en svo að til þess sé ætlast af Hæstarétti að hann láti í ljós þá skoðun
hver eða hverjir umsækjenda séu þeir hæfustu í hópnum. Þess í stað er lagt mat
á hverjir umsækjenda séu heppilegastir og eru þá aðrir umsækjendur væntan-
lega minna heppilegir. Hvaðan kemur þetta orðalag „heppilegur“, af hverju var
ekki sagt hæfastur eða hæfastir?
I umsögn Hæstaréttar kemur fram af hvaða ástæðum hann telur tvo umsækj-
endanna vera heppilegri en hina sex og er það sérþekking þeirra sem þar ræður
112