Tímarit lögfræðinga - 01.09.2003, Blaðsíða 62
6.3 Skilyrði þess að samningur sé neytendasamningur
Akvæði 2. mgr. 5. gr. felur í sér þá reglu að neytandi skuli aldrei vera lakar
settur en ófrávíkjanlegar reglur í lögum þess lands þar sem hann á heima mæla
fyrir um, jafnvel þótt ákvæði um lagaval í samningi geri ráð fyrir því að lög
annars lands skuli lögð til grundvallar.122 Skilyrði fyrir beitingu 2. mgr. 5. gr. er
að fyrir liggi eitthvert þeirra tilvika sem um getur í a-c lið ákvæðisins. Er litið
svo á að í þessum tilvikum sé þörfin á réttarvernd neytenda mest. Ef neytenda-
samningur verður ekki heimfærður undir neitt þessara tilvika gilda um samning-
inn almennar reglur 3. og 4. gr. Skal nú vikið að einstökum skilyrðum.
Samkvæmt a-lið 2. mgr. 5. gr. á hin sérstaka neytendavemd við ef undanfari
samningsins var sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og allar
nauðsynlegar ráðstafanir til samningsgerðarinnar af hans hálfu fóru fram í því
landi þar sem neytandi býr. Það er skilyrði að seljandi hafi boðið fram vöm sína
til kaupanda, annað hvort með sérstöku tilboði eða auglýsingu í blöðum, útvarpi
eða sjónvarpi eða á annan hátt í því landi þar sem neytandinn á heima.123 Peter
Amt Nielsen telur að auglýsingar á Netinu falli undir regluna enda hafi þær
alþjóðlegan tilgang.124 Þá er það skilyrði að kaupandinn hafi gert allar nauðsyn-
legar ráðstafanir til undirbúnings samningsgerð í því landi þar sem hann býr.
Athyglisvert er að með þessu orðalagi er komist hjá því að taka afstöðu til þess
hvar samningur er gerður. Astæðan er sú að erfitt getur verið að skera úr um það
hver samningsstaðurinn er í reynd enda er algengt að slíkir samningar séu gerðir
með bréfaskriftum eða fjarskiptum.125
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. á neytendavemdin við ef gagnaðilinn, eða um-
boðsmaður hans, tók við pöntun neytandans í því landi þar sem neytandi býr. Þetta
skilyrði skarast nokkuð við a-lið 2. mgr. 5. gr. en getur þó haft sjálfstæða þýð-
ingu.126 Hugtakið umboðsmaður tekur til allra sem koma fram í nafni seljanda.127
122 I greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 43/2000 segir að ákvæði greinarinnar
tryggi neytanda vemd samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum í því landi þar sem hann á heima. 1
enskri útgáfu Rómarsamningsins sé notað hugtakið „habitual residence". Með því sé átt við dvöl
um nokkum tíma á tilteknum stað án þess þó að skilyrðum um heimilisfesti (domicil) þurfi að vera
fullnægt. Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 20.
123 Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 703. Þar er einnig tekið fram að hér undir falli einstök tilboð
sem seljandi kann að hafa gert viðkomandi neytanda, annað hvort fyrir tilstilli umboðsmanns eða
sérstakra sölumanna, eða sérstök tilboð sem berast honum í pósti, gegnum síma eða á annan hátt.
Til nánari skýringar er tekið það dæmi að seljandinn birti auglýsingu í íslensku blaði eða tímariti.
Samningar sem gerðir yrðu í framhaldi af því féllu undir sérreglu greinarinnar. Ef slík auglýsing
birtist í dönsku blaði, sem ætlað væri fyrir danskan markað, gæti Islendingur búsettur hér á landi
ekki borið ákvæðið fyrir sig.
124 Peter Arnt Nielsen: Intemational privat- og procesret, bls. 518.
125 Alþt. 1999-2000, A-deild. bls. 703.
126 Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 703. í>ar er tekið sem dæmi það tilvik þegar seljandinn, sem
hefur aðsetur í öðru landi, hefur kynnt vöru sína á sýningu í því landi þar sem neytandinn býr, án
þess að um auglýsingu eða tilboð sé að ræða, og neytandinn pantar á sýningarstað.
127 Mario Giuliano & Paul Lagarde: OJ 1980 C 282, bls. 23.
170