Hugur - 01.01.1992, Blaðsíða 98
96
Eyjólfur Kjalar Emilsson
HUGUR
í svari sínu við andmælum Gassendis leitast Descartes við að skýra
einingu sálar og líkama með því að bera hana saman við einingu
þyngdaraflsins og hlutarins sem býr yfir því. I þessum kafla er litið á
þyngdaraflið sem einkenni hlutarins sem fræðilega séð gæti verið til
óháð honum. Descartes segir:
Reyndar sá ég einnig að þótt það (þyngdaraflið) væri að öllu leyti í
sama rúmi og hluturinn, þá var afl þess hið sama í sérhverjum hluta
hans, því sama við hvaða hluta band væri fest, þá hvíldi allur þungi
hlutarins á bandinu, rétt eins og þyngdaraflið allt væri í þessum eina
hluta en væri ekki dreift um hina einnig.32
Síðan kemur hann með athugasemdina um hugann sem vitnað var til
áðan. I VI. Níund, 4. kafla setur Plótínos fram eina af mörgum
skýringum sínum á því hvernig sálin geti verið í heild í mörgum
hlutum án þess að vera þar með skipt í hluta. Ein af mörgum líkingum
sem hann notar í þessu skyni er dregin af aflinu sem beitt er við að
halda á þungum hlut í hendinni. Hann segir:
En ef maður gerði nú ráð fyrir því að líkamsmassi handarinnar væri
fjarlægður en haldið væri eftir sjálfu aflinu sem heldur hlutnum á lofti
og hélt líka höndinni áðan? Mundi ekki sama ódeilanlega aflið vera
jafnt í heildinni sem í sérhverjum hluta? (VI. 4. 7, 19-23)
Hér er vissulega myrkt mælt. En samt sem áður er ljóst að
Descartes og Plótínos nota mjög svipaðar líkingar til að bregða birtu
yfir sama fyrirbærið, og það fer ekki hjá því að sú spurning vakni
hvort Descartes styðjist hér við Plótínos. Hin atriðin sem eru
sameiginleg Descartes og Plótínosi má einnig finna hjá Ágústínusi,
svo að ef okkur langar að geta okkur til um áhrif þurfum við ekki að
leita lengra. En þyngdarlíkinguna er ekki að finna hjá Ágúsínusi.
Descartes hefði vitaskuld getað lesið Plótínos, því að Marsilio Ficino
gaf út latneska þýðingu rita hans árið 1492 og hún var margoft
endurprentuð og víða lesin af lærðum mönnum á 16. og 17. öld, meira
að segja á íslandi.33
32 Sama rit, s. 255.
33 Sjá grein Gunnars Harðarsonar „Heimspeki og fommenntir á íslandi á 17. öld“,
Hugur, 1. árg (1988), s. 89-100.