Viðar - 01.01.1939, Page 66
[Viðar
Guðmundur Ólafsson:
Á erlendum slóðum.
Ein öld — eitt hundrað ár eru liðin síðan danski spá-
maðurinn og skáldið Grundtvig þeytti ákafast lúður sinn
og vakti þjóð sína og nágranna sína til dáða.
Hann vildi breyta skólunum í skóla lífsins. Þeir voru,
að hans sögn, skóli dauðans. Þeir voru þurr yfirheyrsla og
lexíuþula og vöndurinn til að herða á, — til að skerpa
gáfurnar! Þeir voru Grundtvig tákn hins rómverska og
þýzka aga, heraga. Þeir voru ólíkir heimilunum, þeir voru
óþjóðlegir og ófrjálsir.
Milli lærðra og ólærðra var mikið djúp staðfest. Það
djúp þurfti að brúa, svo að smáþjóðin yrði ein þjóð í styrkri
samvinnu.
Lærðu mennirnir, sem komizt höfðu í gegnum þuluskól-
ana, höfðu svo háa hugmynd um sig og þetta afrek sitt,
að þeir héldu sumir hverjir, að þeir væru hinir einu, sem
hugsað gætu rétta hugsun.
Fyrir einni öld stóð í Morgunblaðinu norska um Óla Vig,
brautryðjanda lýðháskólanna þar í landi, að hann, sem
ekki hefði lært latínu, mætti ekki voga sér að hafa nokkra
sjálfstæða skoðun. Sennilega hefur það átt við sjálfstæða
skoðun á skólamálum.
Grundtvig skrifaði oft og lengi um þessar lýðskólahug-
myndir sínar og voru þær allbreytilegar, og skal ég ekki
fara út í það hér.
En 1844 var fyrst reynt í Danmörku að gjöra hugsjónir
hans að veruleika. Þá var lýðháskólinn í Rödding stofn-
aður, sá er fluttur var til Askov, þá er Þjóðverjar tóku
Suður-Jótland árið 1864. Nú eru þeir skólar margir í Dan-
mörku og viðurkenndir sem lyftistöng fyrir land og lýð.
Geta þeir haldið aldarafmæli sitt að fjórum árum liðnum.