SunnudagsMogginn - 24.10.2010, Síða 25
24. október 2010 25
leggjum bæði metnað í að vera góð hvort við annað og börnin okkar. Það
er guðdómlegt að lifa saman í svona góðu jafnvægi og við munum ekki
láta neitt hafa áhrif á það.“
Án návistar föður
Var erfitt að alast ekki upp hjá föður?
„Mér fannst mjög erfitt að vera ekki hjá pabba, hafa hann ekki hjá mér
og heyra hann segja að ég væri að standa mig í skólanum. Mér fannst erf-
itt að vita að hann kæmi ekki í stúdentsútskriftina mína, eins og foreldrar
vinkvenna minna gerðu. Það er erfitt að vera án návistar foreldris sem
maður þráir að fá viðurkenningu frá. En það hefur líka gert mig að því
sem ég er. Ég er dugleg og hugrökk, kannski er það mín aðferð við að
sanna mig.
Í dag er allt gott á milli okkar pabba og ég elska hann mjög mikið en er
svolítið feimin við hann. Við hittumst sjaldan en ég hugsa oft til hans og
finn að hann hugsar líka til mín. Þeir sem þekkja okkur segja að við séum
mjög lík, bæði útlitslega og svo er mér sagt að ég hafi ýmsa takta frá hon-
um og skapgerð.
Pabbi lenti í skelfilegu slysi fyrir rúmum þremur árum þegar ég var
ólétt að Ellý minni. Ég var mjög hrædd um hann því mér fannst ég eiga
eftir að segja honum svo margt og við eiga eftir að bæta samskiptin okkar.
Ég bað stöðugt fyrir honum. Hann er lamaður eftir slysið en það má
hugga sig við að þetta hefði getað farið mun verr. Hann er í hjólastól, hef-
ur fengið endurhæfingu og getur nú stundað sína vinnu. Pabbi á góða
konu og samrýnda fjölskyldu sem hjálpar honum mikið. Hann er gríð-
arlega öflugur og kraftmikill maður. Ég held að ég hafi kraftinn og orkuna
frá honum.“
Þú ert búin að skrifa bók, þú skrifar um frægt fólk á visir.is og ert að
skrifa skáldsögu. Þú hefur nóg að gera og rekur stórt heimili. Skipta
peningar þig máli?
„Ég vil fá peninga fyrir vinnuna mína eins og allir og hef metnað til að
standa mig vel í því sem ég er að gera. Vefurinn sem ég skrifa á er mjög
vinsæll, sérstaklega hjá konum, og ég legg áherslu á að hafa sem flesta
notendur í hverri viku. Það er svolítið sérstakt að vera að skrifa á vefmiðil
því ég er í stöðugri árangurmælingu á því sem ég er að gera. Ef ég er ekki
með rétta efnið þá hverfa lesendur og þá þarf ég stundum að vera með
aðeins djarfari greinar eða reyna að ná aftur til lesendanna með betra efni.
Að því leyti eru fjölmiðlar á netinu mjög kröfuharðir því þú veist alltaf
nánast um leið hvort einhver hefur áhuga á að lesa það sem þú skrifar. Ég
vil að mér sé umbunað fyrir góða vinnu og finnst að þannig mættu fleiri
konur hugsa. Vissulega er mikilvægt að gefa en við getum ekki gefið
endalaust án þess að þiggja því þá brennum við upp í báða enda.
Ég hef oft upplifað það að eiga enga peninga eða mjög litla peninga. Það
veldur mér miklum áhyggjum og það er ekki góð tilfinning, sérstaklega
þegar börn eru í spilinu. Ég, eins og margir Íslendingar, þarf að vinna
mikið til að láta dæmið ganga upp.
Karlaklúbbarnir eru þéttskipaðir, þar hvetja menn hver annan og
styðja. Tala um peninga og hvernig þeir geti aflað meiri tekna. Konur gera
allt of lítið af þessu. Sumir segja að konur eigi að hugsa eins og karlmenn,
en ég er ekki viss um það. Við konur erum yndislegar, og sérstaklega þeg-
ar við erum að hjálpa hver annarri og hvetja. Við eigum að gera meira af
því. Við eigum að forðast öfund og baktal eins og heitan eldinn. Nota
orkuna okkar til að hvetja hver aðra og gleðjast yfir velgengni vinkvenna
okkar og allra annarra. Lifa fordómalausu lífi gagnvart öllu. Þegar við
gerum það verða til töfrar.“ Morgunblaðið/Golli
’
Mér fannst mjög erfitt að vera ekki
hjá pabba, hafa hann ekki hjá mér
og heyra hann segja að ég væri að
standa mig í skólanum. Mér fannst erfitt
að vita að hann kæmi ekki í stúdents-
útskriftina mína, eins og foreldrar vin-
kvenna minna gerðu. Það er erfitt að
vera án návistar foreldris sem maður
þráir að fá viðurkenningu frá.