SunnudagsMogginn - 24.10.2010, Qupperneq 42
42 24. október 2010
T
uttugasta og fyrsta öldin hefur
verið gjöful gömlu kempunni
honum Clint Eastwood. Þótt
kominn sé á þann aldur sem
flestir kjósa að fara að gíra sig niður er
engan bilbug að finna á karlinum, þvert á
móti er hann hægt og bítandi orðinn einn
merkasti kvikmyndagerðarmaður sam-
tímans. Eftir áratugi í misjöfnum mynd-
um hefur Eastwood tekið sér tak og snúið
sér að nýjum og áhugaverðum viðfangs-
efnum þar sem gætir mikillar fjölbreytni
eins og sjá má þegar rennt er yfir helstu
myndir þessa ódrepandi töframanns síð-
asta áratuginn: Gran Torino (’09); Letters
From Iwo-Jima (’06); Flags of Our Fathers
(’06); Million Dollar Baby (’04) og Mystic
River (’03), svo eitthvað sé nefnt. Ný
mynd frá Eastwood er einfaldlega orðin
einn af stórviðburðunum í kvikmynda-
heiminum.
Enn á sigurbraut
Svo er að sjá af því orðspori sem fer af nýju
myndinni, Hereafter, sem er frumsýnd
núna um helgina í Vesturheimi, að sá
gamli sé enn á sigurbraut. Hereafter hefur
verið viðruð á kvikmyndahátíðum að
undanförnu, m.a. í Toronto og New York,
og hlotið frábæra dóma hjá mörgum af
virtustu gagnrýnendunum. Eins og nafnið
bendir til fæst Eastwood að þessu sinni við
yfirnáttúrlega hluti, veltir fyrir sér hvað
tekur við eftir jarðvist okkar dauðlegra
manna. Hvort við eigum annað líf í vænd-
um er ráðgátan mikla, hins vegar hefur
leikstjórinn þegar tryggt sér ódauðleika í
sögunni. Eastwood hefur hingað til fengist
mestmegnis við jarðbundnar persónur,
líkt og vestrahetjur mynda Leones, Dirty
Harry og nú síðast Kowalski í Gran Tor-
ino, allir hafa þeir staðið óhagganlegir
andspænis dauðanum án minnstu bolla-
legginga um hvað bíði „hinum megin“.
Hereafter fléttar á hinn bóginn saman
sögum af þremur einstaklingum sem hafa
velt dauðanum mikið fyrir sér, en þeir eru
Marie (Cécile de France), frönsk blaða-
kona, sem var hætt komin í flóðbylgjunni
sem skall á Austurlönd fjær árið 2004;
George (Matt Damon), maður úr verka-
mannastétt sem er gæddur umtalsverðum
miðilshæfileikum – hvort sem honum lík-
ar betur eða verr. Sá þriðji er Marcus
(Frankie McLaren), breskur skólastrákur,
sem vill ólmur komast í samband við lát-
inn tvíburabróður sinn. Fólkið hittist og
sögur þess tengjast á bókakaupstefnunni í
London, af öllum stöðum. Enginn er skot-
inn, enginn er laminn.
Gamli naglinn að mýkjast?
Það skyldi þó ekki vera að gamli naglinn
sé að mýkjast? Þá yrði einhver fyrir von-
brigðum, svo mikið er víst. Aðspurður
segir Eastwood vera að fást við málefni
sem allir velti fyrir sér af og til. Hvort líf sé
eftir dauðann og hverju það líkist. Öll
helstu trúarbrögð heims takist á við
spurninguna, en einn af kostum handrits-
ins segir hann vera andlegar pælingar án
ákveðins trúarstimpils. Það sem hreif
hann þó mest var sögumennskan, það sé
komið inn á nýlega atburði líkt og flóð-
bylgjuna sem skall á Austur-Indlands-
skaganum og víðar fyrir sex árum og
sprengingar hryðjuverkamanna í London
og þeir tengdir spurningunni um fram-
haldslíf. Enn fremur fámál aðalsöguhetj-
an, George, sem sé jafnan forvitnileg því
hún sé fjarri því að vera þakklát fyrir þá
sérstöku hæfileika sem hún hefur til að
bera.
Höfundur handrits Hereafter er Peter
Morgan, kunnastur fyrir verk sín um
breska kóngafólkið (The Queen, The Ot-
her Boleyn Girl) og leikritið Frost/Nixon,
sem var kvikmyndað. Hann hefur mun
meiri reynslu og áhuga á eilífðarmálunum
en leikstjórinn. Það sem kveikti hug-
myndina að myndinni var lestur bók-
arinnar If the Spirit Moves You: Life and
Love After Death, eftir Justine Picardie,
breska blaðakonu sem tók dauða ungrar
systur sinnar ákaflega nærri sér. Hún
heimsótti sálarrannsóknarfélög, miðla og
einstaklinga sem töldu sig færa um að taka
upp raddir framliðinna. Bókin vakti
Morgan til umhugsunar um hvað við vit-
um lítið um það sem gerist eftir dauðann í
samanburði við þá þekkingu sem við höf-
um aflað okkur um lífið áður en það fæð-
ist. Úr þessu þekkingarleysi reynir hann
að bæta í handritinu.
Átti ekki von á miklum viðbrögðum
Skriftirnar fóru að ganga betur eftir að
Morgan missti vin sinn, það ýtti við hon-
um í vangaveltunum um viðfangsefnið.
Þegar hann var orðinn ánægður með ár-
angurinn fór hann með verkið á fund
framleiðandans Kathleen Kennedy, sem
hefur m.a. unnið mikið og lengi með Ste-
ven Spielberg. Morgan átti ekki von á
miklum viðbrögðum en Hereafter minnti
Kennedy á The Sixth Sense, og hafði sam-
band við leikstjóra myndarinnar, M. Night
Shyamalan. Hún var stödd hjá Spielberg
sem hlustaði á samtalið og líkaði greini-
lega það sem hann heyrði. Spielberg fékk
handritið lánað, las það yfir og gerði tals-
verðar athugasemdir sem Morgan tók
umsvifalaust til greina.
Það varð úr að Spielberg spurði höfund-
inn hvort hann mætti sýna verkið vini
sínum Clint. Það næsta sem Morgan vissi
var að Eastwood hafði fest kaup á kvik-
myndaréttinum nokkrum mánuðum síð-
ar og var að hefja tökur á óbreyttu hand-
ritinu. Hann reiknaði með að miklar
umræður færu í gang milli hans og leik-
stjórans og bjó sig undir endurvinnslu, en
af því varð ekki. Það sem menn sjá á tjald-
inu er Hereafter rétt eins og myndin var
skrifuð af Morgan.
Sem fyrr segir er verið að frumsýna
Hereafter vestan hafs núna um helgina en
Evrópufrumsýningar eru ráðgerðar í byrj-
un næsta árs. Hún verður sýnd hérlendis
um mánaðamótin janúar/febrúar – þegar
búið er að tilkynna óskarsverðlauna-
tilnefningarnar.
Clint Eastwood kemur til sýningar á Hereafter á kvikmyndahátíð á New York á dögunum.
Reuters
Gamall jálkur á
nýjum slóðum
Clint Eastwood lætur ekki deigan síga þó kominn
sé á níræðisaldurinn, nýjasta myndin hans,
Hereafter, verður frumsýnd um helgina, töku-
staðir og umfjöllunarefnið glæný af nálinni.
Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@mbl.is
Dirty karlinn Harry í öllu sínu veldi. Eastwood aftur kominn í kunnuglegar stellingar.
Áður fyrr. Clint Eastwood sem útlaginn Jo-
sey Wales í samnefndri kvikmynd frá 1976.
Kvikmyndir