Íslenzk tunga - 01.01.1959, Blaðsíða 133
DOKTORSVÖRN
131
hefur langað til að hugsa sér einfaldan uppruna sem leiða mætti af
alla síðari fjölbreytni. En eins og t. d. Paul Diderichsen hefur bent
á,1 þá er reynslan sú að margoft rís einföld og gagnsæ setningafræði
upp úr óreglulegri og margflókinni. Menningarleg þróun, heflun og
þjálfun ritmáls, miðar yfirleitt í þessa átt, og allar ágizkanir um ein-
faldan uppruna að baki elzta ritaðs máls eru næsta hæpnar. Þess
vegna er mér til efs að kenningin um upphaflega hliðskipun úr tóm-
um aðalsetningum hafi verulegt gildi fyrir skilning okkar á notkun
aukasetninga í máli sem við þekkjum til nokkurrar hlítar, eins og
elzta bókmenntamáli íslenzku. Oruggt er, hvað sem öðru líður, að
þegar íslendingar tóku að skrifa bækur, höfðu aukasetningar tíðkazt
í máli forfeðra þeirra um mjög langan aldur, og að minnsta kosti um
margar tegundir aukasetninga skiptir uppruninn engu þegar þar er
komið sögu að við getum rannsakað málið. En mér er ekki grunlaust
um að kenningin um ágæti aðalsetninga fram yfir aukasetningar
eigi sér að nokkru leyti rætur í þessari trú á fyrnsku og upphaflegt
eðli aðalsetninga. Endursögn höfundar á margvíslegum kenningum
málfræðinga um þessi efni (bls. 5—9) — og auðvelt væri að bæta
mörgum dæmum við — sýnir glögglega að enda þótt þessir lærðu
menn séu sammála um að hliðskipun sé upphafleg, þá eru þeir næsta
ósammála um það með hverjum hætti þróunin hafi orðið.
Þessir erfiðleikar á að skýra þróunina koma líka fljótlega í ljós
þegar höfundur fer að lýsa uppruna einstakra tegunda aukasetninga
(1. kafli), eins og vikið verður að síðar. Hann skiptir þeim í flokka
eftir tengiorðum, eftir því hvort þau hafa tilvísunar-, spurnar-, skýr-
ingar- eða samanburðarmerkingu, og í fimmta flokki verða nokkrar
tengingar sem lenda utan við þessa flokka, en að lokum er rætt um
ótengdar aukasetningar. Þessi skipting virðist frekast gerð af prakt-
ískum ástæðum, því að ýmsir annmarkar eru á henni frá öðrum
sjónarmiðum. Auk þess er henni ekki ævinlega fylgt. T. d. er talað
um tilvísunarfornöfn af spurnarstofni undir flokknum „Setningar af
tilvísunarstofni“, en hins vegar um sem í tilvísunarmerkingu undir
1 Sœtningsbygningen i Shaanske Lov (Kobenhavn 1941), 156—57.