Íslenzk tunga - 01.01.1959, Blaðsíða 132
130
DOKTORSVÖRN
bezt sé að forðast eftir megni. Þetta sjónarmið er höf. helzt til ríkt í
huga, og það kemur fram hvað eftir annað í bókinni, ekki sízt í túlk-
unum höfundar á dæmum úr ritum í síðasta kaflanum. Hér er ekki
ætlunin að deila um smekk; en það sem er rannsóknarefnið og fróð-
legast að fá vitneskju um, er hvernig aukasetningar eru eða hafa
verið notaðar, ekki hvernig á að komast hjá þeim. Fyrst er að mynda
sér skoðun um notkun þeirra og tíðni í ýmsum stíltegundum, síðan
er hægt að ræða um orsakir þeirra og sögu. Hitt er í raupinni spurn-
ing sem er allt annars eðlis, hvort fari betur á einhverjum tilteknum
stað, aukasetning ellegar annað orðalag.
Hér á eftir verður drepið á nokkur einstök atriði, einkum úr hin-
um sögulegu þáttum bókarinnar. Þess er rétt að geta í upphafi að
prentvillur eru óþarflega margar, og sumar þeirra leiðar, eins og
rangfærslur á bókatitlum í heimildaskrá og á stöku stað í texta. En
hér skal ekki farið út í sparðatíning í því efni.
í fyrsta kafla bókarinnar („Um upphaf og þróun aukasetninga“)
er gerð grein fyrir uppruna aukasetninga og tenginga, og er þar
saman kominn drjúgur fróðleikur. Höf. hefur athugað bæði rúna-
ristur og ýmis gömul rit íslenzk og norræn og safnað sér úr þeim
alhniklum efnivið, auk þess sem hann hefur hagnýtt sér margvíslegt
efni sem dregið hefur verið saman í handbókum og sérrannsóknum
á einstökum atriðum. Grundvallarsjónarmið hans er hin hefðbundna
kenning að í upphafi hafi engar aukasetningar verið til, heldur að-
eins aðalsetningar, og að tengingar séu til orðnar úr orðum af öðr-
um orðflokkum. Víst er um það að sú kenning stendur í flestum
eldri handbókum í setningafræði, og skal ekki lasta höfundinn þó
að hann fylgi henni. Allt um það hefði ekki sakað að benda á að
kenningin er ekki eins örugg og margir vilja vera láta, enda hafa
ýmsir orðið til að bera brigður á hana. Samkvæmt eðli sínu er hún
ósannanleg, því að í öllum elztu málleifum indóevrópskra mála eru
til aukasetningar, og hún sannast ekki af því að hægt er að sýna
fram á að aukasetningar hafa orðið til úr aðalsetningum á sögulegum
tíma í einstaka tilvikum. Hér er því ekki um annað að ræða en til-
gátu, sem allt eins getur verið eins konar óskhyggja, af því að menn