Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2005, Blaðsíða 260
Mynd 9. Reiknað meðalrennsli inn í Hálslón
og skipting þess í þætti fyrir árin 1950-2000.
Rennslisdreifing Jökulsár á Dal innan ársins
næstu 400 ár
Rennslisdreifing innan ársins er þannig í dag að
jökulþáttur afrennslisins er algerlega afgerandi
þáttur í innrennsli Hálslóns (mynd 9). Vetrarrennsli
er mjög lítið og því gegnir miðlunin mikilvægu
hlutverki við að tryggja jafna orkuvinnslu eins og
aðalkaupandi orkunnar frá Kárahnjúkavirkjun,
Fjarðarál, þarf á að halda.
Það er því ljóst, að ef miðlunin minnkar, þá minnkar
líka trygg orka frá virkjuninni. Það er líka ljóst að
sumarrennslið (jökulþáttur afrennslisins) getur auk-
ist án þess að trygg orka aukist, en ef vetrarrennsli
eykst, þá eykst orkuvinnslugeta (trygg orka) tvöfalt
eða þrefalt meir, því það rennsli kemur á hagstæð-
asta tíma.
Það hefur því afgerandi áhrif á orkuvinnslugetu Kárahnjúkavirkjunar ef vetrarblotar
aukast, því sú aukning getur unnið upp þá minnkun orkuvinnslugetu sem verður með
minnkandi lónrými vegna sets. Samkvæmt almennri vatnafræðilegri reynslu verða
vetrarblotar í hlýrri sunnanátt; ef vetrarblotar eiga að aukast á vatnasviði Jökulsár á Dal,
verður hlý sunnanátt að ná betur inn á vatnasvið hennar en hún gerir í dag.
Oll sú veðurfarsþróun sem hér er sett fram sem líkleg á næstu 400 árum mælir með því
að svo verði. Hiti fer almennt hækkandi, meira land verður jökullaust, vatnaskil lækka
og sunnanúrkoma nær betur inn á svæðið. Sé þetta mál rannsakað eins og þörf er á, er
það mjög líkleg niðurstaða að 6°C hlýnun verði á næstu 400 árum og þá muni vatna-
fræðilegar aðstæður á vatnasviði Hálslóns í 600-800 m.y.s. verða mjög líkar þvi sem er í
0-200 m.y.s. á Norður- og Norðausturlandi í dag, en þar eru miklir vetrarblotar algengir.
Má þar t.d. nefna ítrekuð vetrarflóð í Lagarfljóti á seinni árum. Þetta þarf að kanna nánar
með líkanreikningum sem ganga út frá veðurfarsþróun sem líkleg er talin af IPCC
(International Panel of Climate Change).
Lokaorð
Samkvæmt þeim forsendum sem gert er ráð fyrir í þessari grein mun Hálslón ekki fyllast
af seti á næstu 400-500 árum, eins og gert var ráð fyrir við umhverfismat
Kárahnjúkavirkjunar, heldur verður það aðeins tæplega hálffullt að þeim tíma liðnum og
mun ekki fyllast að öllu leyti fyrr en eftir þúsundir ára.
Sennilegar aðstæður við Kárahnjúkavirkjun eftir 400 ár gætu verið eins og hér segir: Virk
miðlun í Hálslóni væri orðin aðeins um 60% af því sem nú er, en þar sem vatnsrennsli inn
í lónið yfir árið væri orðið dreifðara en nú, er ekki þörf á eins mikilli miðlun og í árdaga
lónsins. Mjög lítið jökulvatn væri til staðar og því berst mjög lítill aurburður til lónsins.
Ef spár um hlýnandi veðurfar ganga eftir, mun aukin úrkoma á vatnasviði
Kárahnjúkavirkjunar og þar með heildarrennsli til virkjunarinnar hafa aukist um allt að
35% vegna hlýnunar þegar að 200 árum liðnum. Til viðbótar við þessa auknu úrkomu
vegna hlýnunar andrúmsloftsins bætist við um 10% úrkomuaukning vegna lækkunar
vatnaskila á sunnanverðu vatnasviði Hálslóns. Vatnaskilin eru nú uppi á miðjum
Vatnajökli, en eftir að jökullinn er horfinn að 400 árum liðnum mun meiri úrkoma eiga
greiða leið norður á vatnasvið Hálslóns. Samkvæmt þessum spám verður heildarrennsli
til miðlunarinnar mun meiri að 400 árum liðnum en nú er, þó að virk miðlun hafi
minnkað um helming.
2 5 8
Arbók VFl/TFl 2005