Uppeldi og menntun - 01.01.2014, Page 81
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 23(1) 2014 81
kolBRún Þ. pálsdóttiR
Menntavísindasviði Háskóla íslands
Uppeldi og menntun
23. árgangur 1. hefti 2014
Viðhorf til náms: Um samþættingu
skóla- og frístundastarfs
inngangUr
Viðhorfsgreinarnar sem birtast í þessu tímariti fjalla allar um stöðu tómstunda- og
félagsmálafræða í íslensku samhengi með sérstaka áherslu á menntun fjölbreyttrar
fagstéttar. Kolbrún Þ. Pálsdóttir fjallar í þessari fyrstu grein um viðhorf til náms og
breytingar á hlutverki grunnskólans í kjölfar þess að frístundaheimili fyrir yngstu
skólabörnin hafa rutt sér til rúms innan skólakerfisins. Vanda Sigurgeirsdóttir kynnir
því næst hugmyndafræði tómstundamenntunar, og færir rök fyrir því að slík menntun
eigi heima bæði innan skólakerfis og stofnana sem vinna með viðkvæmum hópum.
Í þriðju greininni segir Jakob Frímann Þorsteinsson frá upphafi og þróun náms í
tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Loks varpar Árni Guðmundsson
ljósi á starfsaðferðir og fagmennsku í starfi félagsmiðstöðva, frá upphafi félagsmiðstöðva-
starfs á Íslandi upp úr miðri síðustu öld og fram til dagsins í dag.
Það eru gömul sannindi og ný að menntun einstaklings felst í því að honum gefist
kostur á að þroska alla hæfileika sína, verða „meira maður“ (Páll Skúlason, 1987). Í
þessari grein verður því haldið fram að grunnskólinn taki nú viðamiklum breytingum,
án þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um slíkt af stjórnvöldum eða fagfólki
innan skólans. Breytingarnar felast í því að skólar hafa í síauknum mæli tekið að sér
þjónustu við yngstu skólabörnin, þjónustu sem ég nefni hér frístundaheimili en þekkist
einnig undir fjölmörgum öðrum heitum, svo sem skóladagvist, lengd viðvera og
dægradvöl.¹ Hér rýni ég í grundvallarhugmyndir um menntun, nám og þroska barna
sem varpa ljósi á þær breytingar sem eru að verða á hlutverki skólans, og sem ég tel
að leiði til þess að samþætta þurfi skóla- og frístundastarf yngstu nemenda grunn-
skólans.