Morgunblaðið - 26.05.2012, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 26.05.2012, Blaðsíða 39
MINNINGAR 39 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. MAÍ 2012 ans þökk fyrir öll árin og allar góðu samverustundirnar sem við áttum saman. Elsku Kalli Siggi og fjölskylda, við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi góður Guð umvefja ykkur á þessum erf- iðu stundum. Kristrún, Hermann og fjölskylda. Ég er á leiðinni fyrir Tjörnesið með Kalla Sigga og Laufeyju, sit í aftursætinu og við Laufey syngj- um hástöfum ljóðið hans Tómasar Guðmundssonar sem byrjar svona „Tilvera okkar er undarlegt ferða- lag.“ Þessi gamla minning er skýr og sækir fast á mig þegar ég fæ þær fréttir að Laufey hafi verið kölluð burt til annarra heim- kynna. Já, lífið er oft á tíðum und- arlegt ferðalag, og ekki er alltaf auðvelt að sætta sig við ferðatil- högun máttarvaldanna. Eftir vor- kulda er tekið að hlýna en í sál- arfylgsnum okkar sem þekktum Laufeyju er enn kalt, og þá er gott að setjast niður og orna sér við all- ar góðu minningarnar. Það er viss ljómi yfir minningunum þegar fjölskyldan á Litlu-Reykjum fór einn dag á hverju sumri í heim- sókn í Tungu. Í þá daga var þetta heljarinnar ferðalag og ekki farið af stað nema boða komu sína á undan. Mikið lifandis voru þetta skemmtilegir dagar. Laufey tók okkur opnum örmum og veiting- arnar voru ekki af verri endanum. Oft fór hún með okkur í stuttar gönguferðir, merkilegast af öllu fannst mér þegar hún fór með mig niður að ánni, benti mér á planka sem lá þvert yfir ána, og sagði mér að þarna gengju þau stundum yf- ir. Þetta fannst mér hreinasta þrek-virki, þar sem með mínum barns-augum virtist áin líkjast stórfljóti. Þegar ég var í skóla í Lundi, var ég heimagangur í Tungu, oft var ég varla komin inn fyrir dyrnar þegar Laufey spurði „hvað langar þig nú að fá í kvöld- matinn ljósið mitt“ já það væsti sko ekki um mann. Eitt sinn þegar ég var að fara að hátta sé ég enga sæng í rúminu, verð steinhissa og spyr Laufeyju hvar sængin sé. „Æ hún var svo köld svo ég setti hana á ofninn svo þér yrði ekki kalt“. Einmitt svona atvik lýsa Laufeyju svo vel, umhyggjusöm og hlý við þá sem í kringum hana voru. Eftir að ég eignaðist fjölskyldu kom hún ætíð í heimsókn þegar hún kom suður. Eftir að hafa heilsað og spurt frétta, laumaði hún hönd- unum ofan í veskið sitt og dró upp prjónana. Laufey var alltaf með eitthvað á milli handanna, hún sagði að það væri svo róandi og þægilegt. Eftir að Laufey veiktist heyrði ég oft í henni í síma, og þeg- ar ég spurði hvernig henni liði sagðí hún alltaf, „mér líður ljóm- andi vel, hef nóg að borða, hús að búa í, og því ætti ég þá að kvarta.“ Í síðasta skiptið þegar ég heyrði í henni, lá hún á sjúkrahúsinu á Húsavík. „Ég ligg hérna í her- berginu þar sem móðir mín bless- uð lá, og borða skonsu og drekk kaffi,“ sagði hún og bætti svo við „ég er reyndar alveg orkulaus en mér líður vel“. Þetta svar er dæmigert fyrir Laufeyju, svo ótrúlega yfirveguð, jákvæð og æðrulaus. Ég tel mig ríka að hafa fengið að umgangast Laufeyju jafn mikið og ég gerði, og mun ríg- halda í allar yndislega góðu minn- ingarnar. Elsku Kalli Siggi og allt þitt fólk, við fjölskyldan vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum þess að allt hið góða gefi ykkur styrk á erfiðum tímum. Signý Sigtryggsdóttir. Í gróðursælum Öxarfirðinum læðist Tunguáin hljóðlát framhjá litla gróðursæla hólmanum fyrir utan eldhúsgluggann í Hafrafells- tungu. Dapurt er yfir öllu því Laufey Bjarkadóttir húsmóðirin á bænum er horfin á braut. Henni bregður ekki lengur fyrir í gluggum þar sem hún er vön að líta með vel- þóknun til umhverfisins sem hefur verið hennar í marga áratugi. Nær hálf öld er liðin síðan bóndasonurinn úr Hafrafells- tungu heillaði til sín heimasætu innan úr Reykjahverfi og unga parið gerði sér notalegt heimili þar. Í Hafrafellstungu er mynd- arlegur sauðfjárbúskapur og lengst af hafa verið í það minnsta þrjár kynslóðir til húsa þar í túni. Laufey og Kalli Siggi eignuðust „tvisvar sinnum tvö börn“ eins og Laufey orðaði það og vísaði þar til þess að töluverður aldursmunur er á Huldu og Ingu annars vegar og síðar Birnu og Bjarka. Aldurs- hóparnir urðu því fleiri en ella og hver hafði eðlilega sitt viðhorf og sína skoðun svo auðvelt hefur það ekki alltaf verið, en festa, létt lund og jafnaðargeð auðveldar einatt alla sambúð. Laufey var fasti punkturinn og búkonan að hætti bestu húsmæðra sem ennþá finn- ast í sveitum landsins. Börnin uxu úr grasi og brátt voru barnabörnin farin að skokka um hlaðið. Þegar Laufey og Kalli Siggi voru orðin elsta kynslóðin í Hafrafellstungu var það mikið gleðiefni er ljóst var að keðja fjöl- skylduábúðar á staðnum myndi halda áfram enn um sinn. Laufey tók slíku ástfóstri við Hafrafellstungu að það hefðu vart getað orðið sterkari bönd þó að hún hefði slitið þar barnsskónum, Hafrafellið var fjallið hennar og Tunguáin vinur. Vorið með allri þeirri vinnu og amstri sem því fylgir á sauðfjárbúi var Laufeyju sérstaklega kær árs- tími. Hvert nýtt líf sem í heiminn kom var þess virði að yfir því væri vakað og að því hlúð eftir bestu getu. Oft var baslað við það tím- unum saman að koma mjólk úr pela ofan í lítt lífvænlegt lamb og það mátti heyra hvína í hárblás- aranum á hvaða tíma sólarhrings sem var, þar sem verið var að ylja veikburða lambi. Ótrúlega oft sigraði lífið og jarmur heyrðist úr pappakassa á stigaskörinni þar sem lamb var að brölta á gömlu lopapeysunni sem lögð hafði verið í botninn. Umhyggjan fyrir öllu lífi og gleðin yfir því að sjá ungviðið dafna var ávallt í fyrirrúmi hjá Laufeyju. Það er ekki laust við að manni þyki það nokkur kaldhæðni örlag- anna að Laufey sé kölluð burt á þeim tíma ársins sem allt er að vakna til lífsins. Hálft annað ár hafði Laufey barist við veikindi með bjartsýni og dugnað að vopni, sjötugsaf- mælinu var fagnað síðastliðið sumar og fjölskyldan átti margar dýrmætar samverustundir. Þegar dagarnir styttust tók óvinurinn illvígi að sækja að á ný og nú létti ekki til þó að sólin hækkaði á lofti, farsæl ferð var á enda. Nú er Laufey Bjarkadóttir horfin á braut. Án hennar verður líf fjölskyldu og vina ekki það sama en við munum ekki gleyma því að hún hefur átt sinn þátt í því að gera okkur að því sem við erum í dag. Ásta Garðarsdóttir. Laufey húsfreyja í Hafrafells- tungu hefur kvatt þennan heim eftir að hafa langa hríð verið í helj- argreipum sjúkdóms, sem alltof marga leggur að velli á besta aldri, þrátt fyrir öll lyf og tækni lækna- vísindanna. Ég kynntist þessari konu fyrir löngu síðan; í fyrstu vegna vináttu minnar og félagsskapar við mann hennar, Karl Sigurð Björnsson, sem var skólabróðir minn í Menntaskólanum á Akureyri fyrir hálfri öld. Ég varð þess fullviss við fyrstu kynni, að nafna mínum hafði tekist vel til í makavali. Laufey skipaði með stakri prýði sessinn við hlið bónda síns á hinu forna höfuðbóli. Glaðlegt viðmót þeirra hjóna, drengskapur og frá- bær gestrisni snart mig eins og aðra sem komu á heimili þeirra. Síðustu árin, þegar við Ólöf Erla kona mín vorum á heimili þeirra í nokkrar vikur, varð kunnings- skapurinn og vináttan enn meiri og traustari. Við unnum þá að rannsóknum í Norður-Þingeyjar- sýslu á orsökum þess að lömb deyja í móðurkviði rétt fyrir burð, í fæðingu og nýfædd. Búskapurinn í Hafrafellstungu er með sérstökum myndarbrag eins og alkunnugt er. Innanhúss var stjórn Laufeyjar til fyrir- myndar að öllu leyti, en hún lét sig ekki síður varða það sem fram fór utanhúss og sinnti umönnun mál- leysingjanna af mildi og tilfinn- ingu fyrir þörfum þeirra. Öllum komumönnum í Hafrafellstungu er tekið opnum örmun. Hvert sinn er líkast því að koma heim eftir langa fjarveru. Dvöl á heimilinu sérstök, vafin hlýju og gleði. Húsfreyjan bar sig vel og skörulegt var fasið. Hún var kvik í hreyfingum, fljót til svars, glettin, tillögugóð, umtalsgóð og alltaf já- kvæð. Augun leiftruðu af áhuga þegar til umræðu var hvað eina, sem mátti verða til að lyfta sálinni á flug og gleðja aðra. Hún dró ekki úr því að efnt yrði til reiptogs yfir stórfljótið Jökulsá á Fjöllum og tók sjálf þátt í því að kveðast á við vestanmenn í Skúlagarði, þegar haldinn var þar mannfagnaður að afloknum sauðburði, „sauðburðar- gleði“ í júníbyrjun 2009. Og hún lét sig ekki muna um að koma fár- veik til fundar í Lundarskóla haustið 2011, þegar rætt var um að stofna kvæðamannafélag Öx- firðinga og Þistla. Það er harmur kveðinn að okk- ur öllum sem þekktum Laufeyju við fráfall hennar, en það er harmabót Karli Sigurði vini mín- um, að arftakarnir á heimilinu eru efnilegir. Bjarki, sonur þeirra hjóna, hefur erft góða eiginleika foreldra sinna beggja og yndisleg tengdadóttir, Eyrún Skúladóttir frá Tannstaðabakka við Hrúta- fjörð, prýðir hópinn á bænum. Lít- il stúlka, dóttir ungu hjónanna, rennur upp eins og rós á vori í gróðurskála Laufeyjar í Hafra- fellstungu. Allt fólkið í Hafrafellstungu var komið í hóp okkar bestu vina. Við fundum hve böndin innan fjöl- skyldunnar voru ljúf og traust. Við sendum Karli Sigurði og fólkinu hans öllu í Hafrafellstungu, dætr- unum þremur og fjölskyldum þeirra, öðrum skyldmennum, sveitungum og vinum hlýjar kveðjur og ósk um styrk og hugg- un. Ólöf Erla og Sigurður dýralæknir, Selfossi. Gengin er góð kona, Laufey Bjarkadóttir. Margt kemur mér í hug þegar ég hugsa um okkar kynni. Ég hugsa um veturinn sem við Kvennaskólapíurnar áttum saman forðum. Það var skemmti- legur tími og lærdómsríkur og þar hnýttust vináttubönd sem ekki hafa slitnað síðan. Þá var tíminn aðeins óljóst hug- tak yfir eitthvað, sem kom okkur ekkert við. Ótal bjartir dagar biðu okkar, marglit fiðrildi flögruðu í kringum okkur og sorg var bara eitthvað sem snarruglað fólk not- aði sér til afsökunar ef það kunni ekki að lifa lífinu. Fyrir þremur árum hittist stelpnahópurinn síð- ast. Þá var ákveðið að hittast aftur í ár. Það er vont til þess að hugsa að þá vanti Laufeyju. Laufey var ekki bara skólasystir mín, hún varð líka einskonar tengdasystir þegar faðir minn og móðir hennar gengu í hjónaband. Vegna þeirra fjölskyldutengsla áttum við sam- leið á mörgum gleði- og sorgar- stundum. Við vorum ekki systur sem hringdu daglega eða heim- sóttu hvor aðra oft. En við vorum vinir sem höfðu um nóg að ræða þegar við hittumst. Síðast þegar ég sá Laufeyju virtist hún á góð- um batavegi eftir erfiða lyfjameð- ferð. Hún ljómaði af hreysti og leit bjartsýn fram á veg. En sumir sjúkdómar virðast hafa sjálfstæð- an vilja og fara sínu fram þrátt fyrir öll læknavísindi. Síðan Kvennaskólastelpurnar útskrifuðust hafa margir dagar og mörg fiðrildi flögrað hjá en litir þeirra gleymast ekki þeim sem eftir lifa og ég vil trúa því að þeir gleymist heldur ekki þeim sem látnir eru. Ég er þakklát fyrir að hafa þekkt Laufeyju Bjarkadóttur. Blessuð sé minning hennar. Öllum ástvinum hennar sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Sigrún Baldursdóttir. Í einhverri barnslegri einfeldni vill maður trúa að góðu hlutirnir í lífinu breytist aldrei. Ég trúði því alla vega að ég gæti alltaf komið heim í Tungu og þú tækir á móti mér opnum örmum eins og þú hef- ur alltaf gert. Við gætum tekið stöðuna á nýjustu prjónaverkefn- unum okkar, farið út í sólstofu og skoðað blómin þín, brasað eitt- hvað saman í eldhúsinu, sest niður og rætt um daginn og veginn eða bara staldrað við og dásamað feg- urðina í Tungu. Svo áttar maður sig á því að allt hefur sinn tíma og tekur enda, stundum aðeins of snemma. Eftir sitja góðar minn- ingar og innilegt þakklæti fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að kynnast og læra svo ótalmargt af einstakri konu. Það finnst mér besta orðið til að lýsa þér, þú varst bara svo einstök. Þegar ég hugsa um þig finn ég hlýju og gleði, ég brosi yfir mörgum gullnum setn- ingum og dáist að viðhorfi þínu til lífsins. Í minni síðustu kveðju til þín, elsku Laufey, langar mig að þakka þér fyrir allt, allar góðu stundirnar sem við áttum saman, og segja þér hvað mér leið alltaf vel í kringum þig. Ég veit þú tekur á móti mér opnum örmum á ein- hverjum nýjum stað, það verður dásamlegt. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem) Arnþrúður Eik Helgadóttir. Lífið býður manni upp á ým- islegt og eitt af því er að kveðja vini sem manni þykir ómetanlega vænt um. Laufey mín hefur verið hluti af tilveru minni alveg frá því að ég man eftir mér. Einhvern veginn hélt maður að það yrði allt- af þannig, að hún yrði á sínum stað heima í Tungu. Það er ósköp nota- legt að setjast niður og rifja upp góðar minningar sem tengjast henni en óneitanlega er það líka erfitt því ég veit að þær verða ekki fleiri. Sem barn og unglingur man ég eftir hvað var gott að koma út í hús og fá nýbakað rúgbrauð með smjöri og ég man eftir ískaldri mysunni sem Laufey skaffaði okk- ur í baggaheyskapnum. Ég fékk alltaf að vita hvað ég var velkomin til Laufeyjar og Kalla. Svo liðu ár- in og við urðum bestu vinkonur. Þegar maður kom heim í Tungu var manni alltaf heilsað með faðm- lagi og kossi á kinn. Við settumst niður, hún prjónaði og við spjöll- uðum um daginn og veginn. Þá kom hún auðvitað með ógleyman- legar setningar og gullkorn af sinni alkunnu snilld því Laufey var mikill húmoristi. Einhvern veginn langaði mann aldrei að fara heim aftur en loksins þegar maður hafði sig af stað fékk maður aftur faðmlag og koss á kinn, því hún hafði alltaf nóg að gefa öllum. Það var svo gott að setjast niður með Laufeyju, eiga með henni rólega stund og njóta þeirrar góðu nær- veru sem stafaði frá henni. Takk, elsku Laufey mín, fyrir vináttuna og hlýhuginn sem þú sýndir mér alla tíð. Þú kenndir mér margt og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát. Kristjana Erna Helgadóttir. Fósturlandsins Freyja, fagra vanadís, móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís. Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár. Þú ert lands og lýða ljós í þúsund ár. (Matt. Joch.) Með opnum huga fagnaðir þú okkur sem nýjum sveitungum og bauðst okkur velkomin í sveitina fögru. Með opnum huga kíktuð þið Kalli í Sigtún og við vorum ætíð velkomin í Tungu. Fyrir það vilj- um við þakka og í huga okkar munt þú ætíð lifa sem hin sanna móðir, kona, meyja – og vinkona. Elsku Kalli og fjölskyldan öll. Okkar einlægustu samúðarkveðj- ur til ykkar allra. Einnig til henn- ar Erlu Óskars sem nú sér á eftir tryggri og góðri vinkonu. Megi minningin um góðar stundir ylja ykkur og sefa um leið sárustu sorgina. Helga og Ásgeir. Ég hafði þau forréttindi sem strákur að vera í sveit í Tungu og kynnast því eðalfólki sem þar hef- ur búið. Þar voru tvær konur sem hlúðu að mér sem mæður. Maja, sem er fallin frá, og Laufey sem nú er líka fallin frá. Vegna fráfalls Laufeyjar skrifa ég hér nokkrar línur. Þegar ég hugsa til Laufeyj- ar í Tungu koma upp lýsingarorð- in glöð, iðin, góðhjörtuð og glettin. Ekki man ég eftir henni öðruvísi en alltaf að. Ef hún settist niður án þess að vera með prjóna eða nál, þá var það til að spjalla. Og ég man að hún spjallaði alltaf við mig með sömu virðingu og fullorðna. Laufey var mörgum kostum gædd. Hún var mikill dýravinur og talaði líka til dýranna af virð- ingu. Hún hugsaði vel um dýrin sem á bænum voru, hvort sem það voru kýr, hænur, endur, hundar eða heimalningar. Einstakt lag hafði Laufey líka á að hjálpa höf- uð- og hornastórum hrútlömbum í heiminn, því hún hafði sérstaklega nettar hendur og gott lag á að hjálpa ánum að bera. Ég man ekki betur en að Laufey hafi kennt mér að mjólka; allavega fylgdist ég nógu oft með henni við mjaltir eft- ir að ég mokaði flórinn. Þetta voru góðir tímar og gleymast aldrei. Sérstaklega man ég eftir að Lauf- ey kenndi mér að baka flatbrauð með logsuðutæki eða einhvers- konar eldvörpu. Þá sátum við í for- stofunni hjá þeim og settum deigið á mjólkurbrúsa á hvolfi (ef ég man rétt) og svo bökuðum við flat- brauðið með loganum úr logsuðu- tækinu. Þetta fannst mér sér- stakt. Ekki má gleyma að minnast á rósaskálann hennar Laufeyjar sem var fullur af allskonar rósum sem hún ræktaði. Og hún ræktaði meira en rósir því hún hafði áhuga á trjárækt; og ávexti þess áhuga- máls má sjá víða í Tungulandi. Ég man ekki eftir Laufeyju öðruvísi en í góðu skapi. Alltaf var stutt í glettnina. Jafnvel ef þau Kalli Siggi voru ekki alveg sammála þá rökstuddu þau bæði sitt mál á sinn hátt, en mér fannst þau frekar vera að stríða hvort öðru góðlát- lega með glettni í auga. Þau áttu vel saman hjónin og ég þegar ég hugsa til þeirra, er það alltaf með þakklæti, hlýhug og ljúfum minn- ingum. Elsku Kalli Siggi, Hulda, Inga, Bjarki, Birna og aðrir sem sakna Laufeyjar, ég samhryggist ykkur og reyni í mínum söknuði að vera þakklátur fyrir að hafa kynnst Laufeyju og geymi góðar minn- ingar um hana. Almáttugur uppi í æðra á guðs vegum gæta mátt minna mætu „Tungumæðra“ þá þökk mína þú alltaf átt. Kristján Ólafsson. Mig langar að minnast Laufeyj- ar með fáum orðum. Þegar ég flutti úr Keflavík í Hafrafellstungu II í Öxarfirði, voru viðbrigðin mikil fyrir stúlku sem hafði aldrei verið í sveit. Mót- tökurnar hjá heimilisfólkinu í Hafrafellstungu I og ekki síst Laufeyju voru hins vegar frábær- ar og verð ég ævinlega þakklát fyrir það. Laufey var frábær kona, kona sem hafði skoðanir og gerði aldrei meira mál úr hlutunum en ástæða var til. Það í sjálfu sér er mikill kostur fyrir hvern sem er. Laufey var iðin og alltaf með prjónana við höndina, ófáar eru flíkurnar sem liggja í valnum og margir hafa notið góðs af. Blóma- rækt var henni í blóð borin, sér- staklega var natnin við rósirnar aðdáunarverð og uppskar hún sannarlega eftir því. Kvenfélagið var henni hugleikið og reyndi hún mikið til að fá mig í þann fé- lagsskap, mér fannst þessi fé- lagsskapur bara fyrir „þroskaðar“ konur en eftir töluverðar mótbár- ur af minni hálfu gaf ég loks eftir og sé ekki eftir því. Hún var trúuð kona og þótti óskaplega vænt um kirkjuna sína, hún söng í kirkju- kórnum í fjöldamörg ár, en henni tókst ekki að fá mig í kórinn þrátt fyrir margar tilraunir til þess. Laufey tók veikindum sínum af æðruleysi og bjartsýni eins og henni var einni lagið, en enginn ræður sínum örlögum. Þakka þér, Laufey, fyrir hvað þú hefur reynst dætrum mínum vel. Þakka þér fyrir að vera góð vinkona og frá- bær nágranni. Vertu alltaf hress í huga hvað sem kann að mæta þér. Lát ei sorg né böl þig buga. Baggi margra þungur er. Treystu því, að þér á herðar þyngri byrði’ ei varpað er en þú hefir afl að bera. Orka blundar næg í þér. Þerrðu kinnar þess er grætur þvoðu kaun hins særða manns Sendu inn í sérhvert hjarta, sólargeisla kærleikans. (Erla skáldkona.) Elsku Kalli Siggi, Hulda, Inga, Birna María og Bjarki Fannar, ég sendi ykkur og fjölskyldum ykkar mínar dýpstu samúðarkveðjur, Guð styrki ykkur í sorginni. Jóna Kristín. Sendum frítt hvert á land sem er Helluhrauni 12 • Hafnarfjörður • 544 5100 • www.granithusid.is
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.