Frjáls verslun


Frjáls verslun - 01.09.2007, Page 52

Frjáls verslun - 01.09.2007, Page 52
52 F R J Á L S V E R S L U N • 9 . T B L . 2 0 0 7 Í viðtali við Spegilinn nýlega sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að það væri ekki gott að búa við háa vexti til lengdar. Hefur hann ekki talsvert til síns mál? „Jú, það er rétt. Allir vilja að fyrirtækin dafni og þau fjárfesta síður ef þau eiga aðeins kost á lánum með háum vöxtum. En Ísland er ekki lokað land, fólk og fyrirtæki taka erlend lán til að komast hjá háum vöxtum á Íslandi þrátt fyrir gengisáhættu. Gengisáhættan er auðvitað ekki sú sama fyrir alla lántaka. Fyrirtæki sem eru með starfsemi erlendis eða útflutning finna lítið fyrir henni. Þeir sem bera áhættu eru lítil fyrirtæki sem starfa bara á Íslandi og svo einstaklingar sem eru bara með tekjur í íslenskum krónum. Von þeirra er væntanlega að þó að gengið sveiflist til á lífstíma lánsins verði kjörin í heild hagstæðari en íslensk lán með háum vöxtum og verðtryggingu. Þetta styðja alþjóðlegar rannsóknir en tapið vegna gengisáhættu getur orðið býsna ríflegt á köflum þrátt fyrir að lánið komi vel út yfir áratug. Tapið getur meira að segja orðið svo myndarlegt að skuldunauturinn getur neyðst til að greiða upp lánið áður en að lokagjalddaga kemur ef lánadrottninum finnst verðgildi tryggingarinnar vera orðið hlutfallslega of lágt.“ Seðlabankastjóri sagði einnig að í ljósi liðins tíma hefði kannski verið betra að hækka vexti meir og fyrr. Hver er þín skoðun á því? „Ég er ósammála. Í ljósi reynslunnar held ég að menn hefðu átt að sætta sig við verðbólguna, átta sig á að verðbólgumarkmiðið er of lágt og sleppa því að kynda undir hátt gengi með vaxtahækkunum. Komast þar með hjá því að fá allt þetta erlenda kvika fjárflæði inn í landið, sleppa því að fæla Íslendinga út í að taka lán í erlendri mynt og að krónan missi tengingu við efnahagslífið í landinu. Vextir sem stjórntæki eru ofmetnir í íslensku umhverfi því eftirspurnarbrautin er svo veik þar samanborið við önnur vestræn ríki. Forsendurnar í kennslubókunum eru einfaldlega ekki til staðar á Íslandi nema að takmörkuðu leyti.“ Sjálfhelda hárra vaxta Nú hafa bæði seðlabankastjóri og Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagst sjá skýr merki um að stýrivaxtahækkanir séu farnar að hafa áhrif. Davíð nefnir breytingar á yfirfærslum lána, Árni segir þensluna á fasteigna- og hlutabréfamarkaði fara minnkandi. Eru þetta ekki dæmi um að stýrivaxtahækkunin sé að virka? „Nei, ég held þetta sé frekar dæmi um aðþrengda erlenda markaði. Íslensku bankarnir hafa bæði getað fjármagnað sig á ódýran hátt erlendis og losað útlánaáhættu með því að selja lánavöndla. Nú hefur hins vegar erlendur fjármagnskostnaður hækkað og spurn eftir lánavöndlum næstum horfið. Þá verða bankarnir að þrýsta á viðskiptavinina til að borga meira fyrir lánin og minnka sveigjanleika. Það er því einkum alþjóðlega fjármálaumhverfið og hærri fjármögnunarkostnaður þar sem hefur þessi áhrif. Ég held að niðursveiflan á íslenskum hlutabréfum sé fyrst og fremst vegna þrengri fjármögnunarmöguleika bankanna erlendis og lækkunar á erlendum hlutabréfa- og eignamörkuðum. Íslensk hlutafélög eiga erlendar eignir, bæði hlutabréf og skuldabréf, og því eðlilegt að hlutabréfaverð á Íslandi tengist því sem er að gerast úti í heimi. Stýrivextir Seðlabankans hafa aðeins takmörkuð áhrif þarna.“ Háir vextir og kvikt fjárflæði eiga þátt í að halda gengi krónunnar háu. Ef það kemur eitthvað upp í vaxtastefnu Seðlabankans sem erlendir fjárfestar í jöklabréfunum túlka sem hik eða óskýra stefnu má leiða að því líkum að erlenda féð streymi strax úr landi, krónan snarfalli og erlendu lánin hækka. Er það þar með ekki orðið hagsmunamál að halda vöxtunum háum? „Það má kannski segja að við séum komin í sjálfheldu hárra vaxta og það stefnir í að Íslendingar hætti að taka lán í íslenskum krónum! Við erum hugsanlega þegar komin hálfa leið í þann stað að gjaldmiðillinn sé orðinn að engu. Á meðan kveljast einstaklingar og minni fyrirtæki sem hræðast gengisáhættuna og treysta sér ekki til að taka lán í erlendri mynt. Ég held hins vegar að þessi fyrirtæki og einstaklingar drífi ekki áfram hagkerfið og því munu þeirra kvalir ekki endurspeglast í lægri verðbólgu. Ég er samt enn þeirrar skoðunar að það sé hægt að snúa af þessari leið og fá fólk til að fjármagna sitt í krónum. Ef núverandi þróun heldur áfram, erlent skammtímafjármagn streymir inn í leit að hárri ávöxtun og Íslendingar taka erlend lán, verður íslenska krónan ekki tengd íslenskum aðstæðum. Hugmyndin með sjálfstæðum gjaldmiðli hlýtur að vera sú að hann endurspegli aðstæður í íslensku atvinnulífi. Til dæmis ætti gjaldmiðillinn að veikjast þegar útflutningur er lægri en innflutningur og þar með hjálpa til að ná jafnvægi á viðskiptum við útlönd. Þetta hefur ekki gerst á Íslandi vegna þess að krónan virðist ekki vera í sambandi við atvinnulífið.“ Það fjarar undan hagstjórnartækjum Seðla- bankans, fólk hefur stungið stjórnmálaflokkana af og sótt sér erlend lán og krónan að losna úr tengslum við íslenskan veruleika. Er þá næsta skref að taka upp evruna? „Evran hefur kosti og galla sem er of langt mál að rekja. Samkvæmt stjórnvöldum er ekki raunhæft að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það sé rétt en þori að fullyrða að evran er ekki á næsta leiti og því er brýnt að bregðast við núverandi aðstæðum.“ k á r i s i g u r ð s s o n í l o n d o n Kári SigurðSSon: nám: 1999: BSc í hagfræði frá Háskóla Íslands. 2002: MSc í fjármálahagfræði frá London School of Economics. 2007: PhD í fjármálum frá London Business School. Starfsferill: 2000: Greiningardeild Norræna fjárfestingarbankans. 2007: Lektor við Háskólann í Reykjavík. 2007: Sjóðastýring hjá Barclays Global Investors. rannsóknir: Greinar í Fjármálatíðindum og Tímariti um viðskipti og efnahagsmál. Erindi fyrir ársfund American Finance Association, Institute of Quantitative Investment Research, Seðlabanka Íslands, UK Society of Investment Professionals og víðar.

x

Frjáls verslun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Frjáls verslun
https://timarit.is/publication/282

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.