Frjáls verslun - 01.10.2008, Síða 5
6 F R J Á L S V E R S L U N • 1 0 . T B L . 2 0 0 8
RitstjóRnaRgRein
Hann er ríkiskapítalisti
Öreigar allra
landa þurftu ekkert
að sameinast;
kreppan kom með
ríkiskapítalisma á
einni nóttu úti um
allan heim.
Hann er skattborgarinn og hann er hinn
nýi milljarðamæringur Íslendinga. Stjórnvöld komu
nýlega auga á hann í miðri kreppunni og ætla honum
að draga vagninn og taka á sig þungar byrðar næstu árin.
Þess vegna helgar Frjáls verslun honum forsíðuefnið að
þessu sinni. Hann er tákn nýrra tíma; tákn um stórfelld
og stóraukin ríkisafskipti. Það er mikið á hann lagt;
honum er ætlað að standa við bakið á ríkissjóði sem er
með um 3.000 milljarða króna fjármagnsþörf næstu þrjú
árin. Lánshæfi ríkisins hefur hrunið og alþjóðleg mats-
fyrirtæki telja núna minni líkur á að ríkið geti staðið við
skuldbindingar sínar. Ég skil það vel, ég veit satt best að
segja ekki hvernig ríkið ætlar að greiða þessi ósköp til
baka.
skattborgarinn er ríkiskapítalisti. Hann á
þrjá ríkisbanka og eignast innan skamms hluti í hundr-
uðum lífvænlegra einkafyrirtækja þegar bankarnir bjóða
þeim að breyta skuldum í hlutafé svo þau
verði ekki gjaldþrota og þúsundir missi ekki
vinnuna til viðbótar. Ég styð þessa leið; hún
örvar atvinnulífið; hún bjargar. Þetta er að
vísu „eftir á“ björgun og nokkuð flókin.
Ég hef lagt til að fjármagnskostnaður fólks
og fyrirtækja verði lækkaður úr öllu valdi í
kreppunni með afnámi verðtryggingar og
lækkun vaxta til að forða þeim frá gjald-
þroti; að lánastofnanir afskrifi hluta af lán-
unum strax, framar í keðjunni. Þær þurfa
þess hvort sem er síðar meir. En þetta er
„fyrirfram“ aðgerð en ekki „eftir á“ björgun
– ef einhverju verður þá bjargað.
Hinn venjulegi kapítalismi hrundi á einni
nóttu og við blasa ríkisbankar, ríkisfyrirtæki, ríkisheimili
og ríkiskapítalisti. Það verður mjög flókið ferli þegar
skipað verður í stjórnir þeirra mörgu einkafyrirtækja sem
breytast í ríkisfyrirtæki á næstu mánuðum vegna skuld-
breytinga. Bankarnir stofna eignaumsýslufélög utan um
hlut sinn í þessum fyrirtækjum og flokkarnir koma sínu
fólki að í þeim. Það verða margir sem ganga í stjórn-
málaflokka á næstunni til að eygja von um stjórnarsetu
í fyrirtækjum. Myndirnar af stjórnum nýju bankanna í
blöðunum voru táknrænar og sögðu allt sem segja þarf.
Það verða hrikaleg átök þegar ríkið ætlar síðar að losna út
úr bönkunum og fyrirtækjunum.
Hin stófellda ríkisvæðing í kreppunni er áfall
fyrir okkur hugsjónamenn um frjáls viðskipti, lítil ríkisaf-
skipti og mátt markaðsaflanna. Kapítalisminn er hrun-
inn tímabundið. Það kallast ekkert annað en hrun hans
þegar sett eru neyðarlög um eignaupptöku í fyrirtækjum,
inngrip ríkisins á flestum sviðum fjármálalífsins, gjald-
eyrishöft og nýjar leikreglur daglega sem koma í veg fyrir
að frjálsir markaðir og markaðsöfl starfi eðlilega. Tapaði
frjálshyggjan? Eflaust absúrd spurning í ljósi bankahruns-
ins. Ég er samt enn þeirrar skoðunar að hlutverk rík-
isins sé að setja starfsreglur en gera sig ekki gildandi í
almennum rekstri. Ég er enn þeirrar skoðunar, þrátt fyrir
fall útrásarvíkinganna, að frjáls viðskipti og dugmiklir,
kraftmiklir, framsæknir einstaklingar séu besta leiðin til
framfara. Ég er enn þeirrar skoðunar að frelsið sé besta,
sanngjarnasta og skemmtilegasta leikaðferðin í viðskipta-
lífinu. En það þarf augljóslega strangari umferðarreglur;
ekki síst þegar kemur að rekstri banka.
er eittHvert annað ráð í stöðunni en að láta
ríkissjóð koma til bjargar? Ég held ekki. Það var of
áhættusamt að sitja hjá og grípa ekki inn í og leyfa
bönkunum þremur að stöðvast í óákveðinn tíma og láta
helstu erlendu kröfuhafana taka við þrotabúunum eins
og tíðkast almennt í gjaldþrotum. Ef bankakerfið hefði
stöðvast í nokkra daga hefði atvinnulífið stöðvast og það
eitt og sér hefði leitt til fjölda gjaldþrota og er ekki á það
bætandi. Var hægt að sleppa hinu skilyrta láni Alþjóða-
gjaldeyrissjóðsins við að endurreisa gjaldeyrismarkaðinn?
Sennilega ekki. Það lán er gæðastimpill og ávísun á fleiri
lán. Opinn gjaldeyrismarkaður og sterkt bankakerfi er
forsenda þess að hægt sé að endurreisa atvinnulífið. Þetta
var líklegast skák og mát allan tímann.
Hvað getum við lært? Við höfum fengið
svar við einni spurningu; krónan er ónýt. Ísland getur
ekki haldið úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Það er alltof
áhættusamt og heldur þjóðinni í skuldafangelsi verð-
bólgu og verðtryggingar. Við fengum tvær kreppur í
fangið á meðan aðrar þjóðir fengu eina. Við fengum
gjaldeyriskreppu og venjulega kreppu. Það er skelfileg
blanda; banvæn blanda og gerir mönnum erfiðara fyrir
í hagstjórninni. Við getum sjálfum okkur um kennt.
Við áttum að vera búin fyrir löngu að skipta krónunni
út fyrir alvöru gjaldmiðil. Næsta skref er að skipta um
gjaldmiðil – hvenær sem það verður hægt vegna strangra
skilyrða Evrópusambandsins um lítinn fjárlagahalla, litla
verðbólgu og litlar ríkisskuldir við að taka upp evru.
Það er Heimskreppa. Okkar skattborgari er
alls ekki eini skattborgarinn í heiminum sem stendur í
ströngu þessa dagana. Það er alls staðar treyst á hann til að
forða falli stórra fyrirtækja og banka. Öreigar allra landa
þurftu ekkert að sameinast; kreppan kom með ríkis-
kapítalisma á einni nóttu úti um allan heim.
jón g. Hauksson