Tímarit Máls og menningar - 01.05.1955, Síða 52
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
hann, eins og títt er um vonda menn,
og nú varð hann gulgrár í framan, og
við sáum að hann kreppti hnefana. En
hann stillti sig og sagði með ógn-
þrunginni hægð:
„Það er þá svo komið, að þú, Þórð-
ur í Sveinsbæ, sem notið hefur virð-
ingar sem dugandi borgari í þessu
bæjarfélagi, ert genginn í þann óald-
arflokk ábyrgðarlausra stráka, har-
monikkuspilara og guðsgeldinga sem
vilja spilla vinnufriði og leggja at-
vinnuvegina í rúst með fíflalátum."
„Andspænis sameiginlegri kúgun,“
sagði Þórður, „eru menn hvorki
virðulegir borgarar, ábyrgðarlausir
strákar, harmonikkuspilarar né guðs-
geldingar, aðeins menn. Og svo má
brýna deigt járn að bíti.“
Eyjólfur stóð nokkur augnablik
þegjandi og hreyfingarlaus, en gekk
síðan inn í húsið. Og þegar hann öskr-
aði „Tíminn!" í þetta sinn, var eng-
inn búinn að setja á sig vettlingana né
binda á sig brigðið nema Pétur Extra-
long. Það þarf margar nætur til að
sauðakjöt verði skerpikjöt.
Byltingin lá í loftinu. Að vísu gerð-
ist ekkert markvert það sem eftir var
dagsins, en ég held við höfum allir
fundið að stundin var komin. Að
minnsta kosti hefði ekki þurft annað
en líta snöggvast á Þórð í Sveinsbæ
til að sannfærast um það. í staðinn
fyrir gamla embættishátíðleikann var
nú komið kæruleysi í svip hans, jafn-
vel glaðklakkalegt samvizkuleysi, og
hann fleygði fiskinum á vigtina með
andstyggð og fyrirlitningu, eins og
hann ætti allur að fara í vesæla negra
á plantekrum Suður-Afríku, en ekki í
forna menningarþj óð við Miðjarðar-
haf. Og hann var alltaf að taka í nef-
ið.
Og á leiðinni heim um kvöldið slóst
Þórður í för með okkur Eggerti og
sagði:
„Hvenær mundi vera heppilegast
að heilsa upp á Skálan og krefjast þess
að hann láti Eyjólf loka lúgunni og
hætta að misbeita valdi sínu svo sem
hann hefur gert að undanförnu, ella
munum við grípa til róttækra ráðstaf-
ana?“
Ég þarf ekki að lýsa fögnuði okkar
Eggerts að heyra Þórð mæla þessi
langþráðu orð. Eggert var fljótur að
svara:
„Ég held það sé langklárast að tala
við hann í hádeginu á morgun; þá
verður hann nýbúinn að snarla belg-
inn á sér út úr kojunni og ætti að vera
í sæmilega góðum húmmer með ilm-
inn af middagsbrasinu í blásturshol-
unni.“
„Við förum þá allir saman til hans
í hádeginu á morgun,“ sagði Þórður.
„Það er bezt þið talið við Jón og biðj-
ið hann að hafa orð fyrir okkur.“
Eggert sló saman höndunum og
stökk hátt í loft upp af uppreisnar-
energíi og byltingarhúmmer.
162