Tímarit Máls og menningar - 01.12.1958, Page 14
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
vítis sem ölduiri saman hafði legið eins og mara á íslenzku sálarlífi. Og það
tókst honum.
Þorsteinn Erlingsson harðneitaði þeirri kenningu að mannkyninu hefði
verið bjargað með hryllilegum krossdauða spámanns nokkurs í eitt skipti fyrir
öll. Hann var sannfærður um að böl alls mundi ekki batna fyrr en fólkið sjálft
hristi af sér hlekki auðvalds og kennivalds — sem í hans augum voru tvær
hliðar á sama hlutnum — og gerði jörðina að friðsælli sameign sinni og
fegurðaruppsprettu.
Hitt er svo ekkert furðuefni hversu mjög hann dáði meistarann frá Nazaret.
eins og hann birtist okkur í guðspjöllunum. Ég þykist ekki guðlasta þó ég
gizki á að enginn íslendingur hafi um sumt verið Kristi líkari. Báðir réðust af
heilagri bræði gegn hræsni og kúgun, báðir voru óþreytandi málsvarar smæl-
ingjanna, báðir töluðu til fólksins á einfaldasla máli hjartans, báðir voru
gæddir því milda innsæi skáldsins sem veit að andinn lífgar en bókstafurinn
deyðir — að allt frelsi er fólgið í lifandi samvitund við síunga og síbreytilega
verðandi himins og jarðar. Jesús Kristur og Þorsteinn Erlingsson eru báðir
merkisberar þeirrar ævarandi kröfu veikleikans sem öll mikil sköpun er risin
af.
Eigi var kyn þótt nokkuð drægi úr eldmóði skáldsins eftir lieimkomuna:
hér var þá engin höfuðborg né háskóli né iðnaður né verklýðshreyfing — ein-
ungis grár veruleiki hnípinna sveita og kauptúna og endurreisnarbjarminn að
mestu hulinn hungurmóðu aldarinnar. En handan yfir haf var hann þegar
búinn að slá fyrsta slag byltingarinnar á Islandi: hinn ómótstæðilegi frum-
hljómur sósíalismans hafði náð eyrum alþýðunnar — og þar mun ásláttur
snillingsins halda áfram að óma, unz brautin er brotin til enda.
Nú þótt Þorsteinn Erlingsson sækti eld boðskapar síns út í lieim, þá voru
íslenzk örlög það baksvið er léði eldinum hina djúpu birtu sem stafar frá
skáldskap hans. Þeim örlögum var hjarta hans bundið í lífi og dauða. Hann
hataði að vísu mikið, en aldrei einstaklingana sem slíka, heldur þá siðblindu
sem hann taldi þá formyrkvaða af. Því eðli hans var að elska — þyrnarnir
voru aðeins sársaukafull vörn þess rósagarðs þar sem ást hans greri: ást hans
á landi og þjóð og sögu og tungu, ást hans á öllu ósviknu lífi.
Þegar maður snýr sér frá bitrustu ádeilukvæðum hans að ljúfustu ljóðun-
um um það sem hann unni er sem maður gangi úr þrumum og eldingum
Heklu yfir í alsælan sólskinsmorgun austur í Fljótshlíð. Slík voru veðrabrigð-
in í sál hans. í þessum ástaljóðum býr hinn upprunalegi grunntónn skynjunar
hans — hitt allt er réttlát reiði náttúrubarnsins yfir að vera truflað í tilbeiðslu
188