Tímarit Máls og menningar - 01.09.1967, Blaðsíða 36
Tímarit Máls og menningar
hafa sett saman um móðurmál sitt; og þetta er ekki nema fyrsta bindið og
von á fleirum.
Ossetar hafa flestir hverjir til skamms tíma verið kristnir að kalla; þeim
mun þó einatt hafa brugðið til forns siðar þó turnast létu um skeið, og er
þess getið í bókum sumsstaðar að þeir ræki biskupa úr landi þá er þeim tók
að leiðast prjál þeirra. Kristnir dýrðarmenn hafa smámsaman verið teknir
í goðatölu og fornkappa; til að mynda er sagt að Sántipétur byggi fyrir sjó
neðan, og er höll hans af perluskel, gólf af skæru gleri, en dagstjarnan blikar
í ræfrinu. Dóttir hans var Dzerassa, væn kona; og er hún andaðist var hún
lögð í haug. Þá er það eitt kvöld, heyra menn ölteiti úr haugnum, fara til og
sjá hvar Sántigeorg situr hjá konunni, og eigast við gamanrúnar. Þau áttu
dóttur þá er Satana hét, og brá af fríðleik hennar frá öðrum konum, svo að
þótti sem dagur væri um loft allt þar er hún var, en orð hennar snörp sem
ör og bitur sem sverð.
Til voru þó í fyrri daga nokkrir kynþættir sem hnigu að múhameðstrú;
ekki mun sá siður samt hafa verið forn í landinu. En þegar Rússakeisari var
að brjóta undir sig hin norðlægari Kákasuslönd um miðja öldina sem leið,
stukku þessir kynþættir úr landi og fleiri nágrenndarþjóðir sem ekki vildu
búa við stjórn kristinna manna, og fóru búferli sínu til Tyrklands; voru Sir-
kassar þeirra fjölmennastir. Ekki sparði Tyrkjasoldán eggjunarorðin, en
Englendingar, bandamenn hans, blésu í glæðurnar. Hinir landflótta menn
máttu þola ógurlegar þrautir og volæði í Tyrklandi, og hrundu niður þúsund-
um saman úr harðrétti; aðrir lögðust út með ruplun og ránskap. Þeir sem af
komust, settust að víðsvegar í Tyrkjaveldi og sömdu sig smátt og smátt að
þarlendum lífernisháttum, hafa þó margir varðveitt þjóðemi sitt og mál;
samt væri synd að segja að yfirvöldin hafi liðsinnt þeim við það. A meðal
þessa fólks var einnig Temírbolat nokkur af Mamsúrs-ættkvísl, nafntogað
skáld; hann tók sér bólfestu í þorpi ekki alllangt frá Sívas í Kappadósíu.
Og nú stendur lítillátur sögumaður þessara blaða hér á Halýsbökkum einn
morgun snemma á túnaslætti, og gengur fyrir hvers manns dyr spyrjandi:
— Ekki vænti ég hér leynist kerlingarhimpi í kör, sem það fólk kom bú-
ferli sínu norðan úr Kákasusdölum þá tíð þegar amma Stalíns var ung, og
kalli vatnið don og daginn bon og kunni að fara með sögur af garpinum Úr-
úsmag bónda Sötunu og af Soslan, honum vildi enginn hlutur vinna mein, ell-
egar af Syrdon hinum lægjarna er flestu illu hefur valdið með Nörtum, og
bar liann þó hugvit og ráðkænsku af öðrum mönnum. Eða hvort man nú
nokkur Temírbolat Mamsúrsson, skáldið?
130