Tímarit Máls og menningar - 01.12.1971, Page 44
Guðmundur Böðvarsson
Gullastokkur
í kistli þeim, frá þínum æskumorgni,
sem þú lézt gjarnan standa úti í horni
og laukst ekki upp í augsýn nokkurs manns,
straukst aðeins rykið burt af loki hans,
og kæmi barn og segði: — sýndu mér,
var svar þitt jafnan: — það er ekkert hér,
— þar fann ég niðri á botni lítið lín,
einn lítinn dúk, — og fyrstu
nálarsporin þín.
Ein barnsleg rós með rauðum krónublöðum,
fimm rósarblöð
í kyrfilegri röð,
og óljóst teiknuð áfram sex til níu,
þau áttu að verða tíu,
og út frá leggnum uxu prúð og væn
með yndisþokka laufin fagurgræn,
og það átti eflaust þarna að koma fleira,
— en það varð aldrei meira.
Ég veit það bezt, það varð þín ævisaga
að verða að hverfa flesta þína daga
frá þinni þrá og draumi,
frá þínurn rósasaumi,
og nálin þín að þræða önnur spor
en þau, sem eitt sinn gerðir þú að tákni
um sól og vor.
234