Tímarit Máls og menningar - 01.07.1976, Side 42
Tímarit Máls og menningar
skipan heimsins „hreina og ómengaða“. Einmitt þetta vildi Shakespeare
segja. Það verða skyndileg leiftur af snilld í þessu æskuverki. Eitt þeirra
er jöfnuður Ieigumorðingjans við bróður konungsins:
HERTOGINN AF KLARENS: í Herrans nafni, hver ert þú?
FYRSTI MORÐINGI: Maður, rétt einsog þér.
HERTOGINN AF KLARENS: En konunglegur ertu’ ekki’ einsog ég.
FYRSTI MORÐINGI: Né konunghollur þér; en það er ég.
Þetta samtals-brot vísar þegar fram til Hamlets. Því hvað eru leigumorð-
ingjar ef ekki líkgrafarar sögunnar? I kirkjugarðinum á Helsingjaeyri eru
einnig líkgrafarar á tali við konungsson. Einnig þeir líta stórtíðindi sög-
unnar og leiksvið mannlífsins frá sama sjónarmiði: þeirra sem taka grafir
og reisa gálga. Séð frá þessum sjónarhól er enginn munur á kóngssyni og
flæking. Þeir eru dauðlegir báðir. Þeir fæddust til að deyja. Leigumorðingi
og sonur konungsins voru gerðir jafnir með tvennum hætti. Fyrir gang
sögunnar eru þeir einungis tannhjól í Vélinni Miklu. Frá sjónarmiði kirkju-
garðs og gálga eru þeir báðir aðeins manneskjur. Shakespeare er snillingur
í óvæntri sviðsbirtingu, svo líkast er því að elding bregði ljósi yfir allt hið
gífurlega landslag sögunnar. Þann.ig vísar Rík.arður þriðji þegar veginn
til skilnings á Hamlet sem pólitísku leikriti, og á hinn bóginn verður
Ríkarður í Ijósi Hamlets að heimspekilegu verki um ósætti siðalögmála
við lögmál mannlegrar breytni.
Tveir morðingjar koma í fangaklefann til þess að drepa bróður Ríkarðs
að hans eigin boði. Bæði hertoginn af Klarens og morðingjarnir drepa
samkvæmt skipun konungs og í hans nafni. Síðast í gær gat hertoginn af
Klarens skipað þeim, á vegum konungs, að fremja hvaða morð sem var.
I dag er hann sjálfur í fangelsi, og verður að deyja samkvæmt skipun sama
konungs, og í hans nafni. Hertoginn og leigumorðingjarnir eru aðeins
menn, og tannhjól í sömu vél.
Hyggjum að þessu atriði einu sinni enn. Bróðir konungsins skipaði einatt
morðingjum að drepa í þágu lands og þjóðar. Hann hefur verið settur í
fangelsi og á nú sömu morðingjum að mæta. Hann hefur uppi varnir.
Hann talar við þá um samvizku. Þeir svara því til, að hann hafi sjálfur
gabbað samvizkuna. Hann kveðst vera ráðgjafi konungsvaldsins. Þeir segja
að í fangelsi séu engir ráðgjafar. Hann ræðir við þá um háleitar hugsjónir.
Þeir svara, að nú heimti þessar sömu hugsjónir, að hann deyi.
136