Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Blaðsíða 66
Magnús Kjartansson
Hvað hefur verið að gerast
í Víetnam og Kampútsíu?
Lengi vel stóðu um það miklar deilur hver fara ætti með atkvæði Kína hjá
Sameinuðu þjóðunum, en Kínaveldi var eitt af stofnríkjum þeirra alþjóða-
samtaka með fast sæti í Öryggisráðinu. Meirihluti Sameinuðu þjóðanna
fyrstu áratugina eftir stofnun þeirra taldi að Maó Tsetung, Líu Sjaósí, Sjú
Enlæ og félagar þeirra, sem náð höfðu öllum völdum á meginlandi Kína
eftir einhver athyglisverðustu átök mannkynssögunnar, væru þvílík rusta-
menni að þeir ættu ekki heima í klúbbi siðaðs fólks, og því skyldu stjórnar-
völd á eyjunni Tævan, sem var langt úti í Kyrrahafi og hernumin af banda-
ríkjamönnum, fara með atkvæði hins mikla kínverska þjóðasamfélags. Þeg-
ar völd innan Sameinuðu þjóðanna breyttust smátt og smátt með tilkomu
nýrra ríkja og meginland kínverska þjóðasamfélagsins tilnefndi að lok-
um fulltrúa, kom í Ijós að þeir féllu að Sameinuðu þjóðunum eins og flís
við rass. Sameinuðu þjóðirnar eru mesta og flóknasta skriffinnskustofnun
okkar daga, en kínverjar eru fullkomnustu snillingar heims í skriffinnsku,
hafa sérhæft sig í henni um þúsundir ára og nú tekið hana upp sem
stjórnsýsluaðferð á nýjan leik, eftir að Maó féll frá og tekist hafði að kveða
niður þá kenningu hans að valdataka væri ekki bylting, heldur þyrfti bylting
að halda áfram í sífellu, þ.e. vera samfelld þróun að tilteknu marki.
Kínverjar hafa ekki verið hávaðasamir innan Sameinuðu þjóðanna eftir
að Pekingstjórnin fékk þar fulltrúa. Fyrsta tillagan sem Kínaveldi sá
ástæðu til að flytja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sá dagsins ljós
snemma í janúar í ár, og það vandamál alheimsins sem kínverjar töldu alvar-
legast birtist í stóryrtri staðhæfingu um það að grannar þeirra í suðri,
víetnamar, hefðu lagt Kampútsíu undir sig með vopnavaldi. Undirtektirnar
létu ekki á sér standa. Japan studdi tillögu Kínaveldis, en í síðustu heims-
styrjöld lögðu japanir Víetnam og grannríki þess undir sig, gerðu franska
embættismenn Vichy-stjórnarinnar frönsku að leppum sínum og notuðu
svæðið sem miðstöð til árása á stöðvar andfasista, m.a. á yfirráðasvæði
56