Tímarit Máls og menningar - 01.06.1979, Side 46
Guðbergur Bergsson
Ég á bíl
Óli er lítill, skolhærður strákur. Hann hefur ekki áhuga á neinu öðru en
bílum.
Óli á fimmtán bíla af ýmsum stærðum. Allir bílarnir eru rauðir. Ég
bendi Óla á tunglið. Tunglið er í bók. Og ég segi við Óla:
Óli, sjáðu, þarna er tunglið.
Þetta er bíll, segir Óli.
Tunglið er bjart. Það veður í skýjum. Ég hugsa mig um. Ég hugsa um
að kannski segi Óli satt. Og ég segi:
Já, Óli minn, þetta er bíll. Hann veður í skýjum. Skýin eru snjóskaflar
í loftinu. Bíllinn ekur alla nóttina til morguns. Og þegar birtir, þá vaknar
sólin.
Hún er bíll, segir Óli fagnandi.
Nei, segi ég, því ég vil vera fullorðin manneskja. Óli, sólin er sól. Hún
getur ekki verið annað. Og sólin er sjóðheit uppi á himninum.
Hún er bíll, segir Óli.
Sólin er ekki raunverulegur bíll, segi ég. Sólin er sól.
Hún er flutningabíll, segir Óli.
Það er hún á vissan hátt, viðurkenni ég.
Hún er vörubíll, segir Óli glaður.
Sólin er kringlótt eins og hjól, segi ég. Og hún ekur öllum sínum gæð-
um til jarðarinnar. Sólin ekur hlýjunni úr suðri hingað norður. Hún kemur
með vorið. Og geislar hennar flæma burt veturinn og frostið.
Hún er sjúkrabíll, segir Óli.
Hálfgerður sjúkrabíll, viðurkenni ég. Sólin er betri og stórvirkari en
vélskóflan, sem mokar burt snjónum. Hún er duglegri en grafan. Það kæmi
aldrei kuldi og bylur, ef sólin væri alltaf hérna með geislana sína.
Hún er löggubíll, segir Óli.
Já, segi ég. Sólin ver landið okkar á sumrin gegn kulda með geislunum.
172