Tímarit Máls og menningar - 01.06.1979, Qupperneq 90
Astrid Lindgren
Tu tu tu
Fyrir langa löngu, á tímum fátæktarinnar, voru enn úlfar um allt land,
og eina nótt drap úlfur allt fé fólksins á bænum Kapela. Allar lagðsíðu
ærnar, öll litlu, jarmandi lömbin lágu sundurtætt og blóðug úti í haga
þegar Kapelafólkið vaknaði um morguninn. A tímum fátækarinnar var
þetta ógurlegasta áfall sem yfir gat dunið. O, hvað fólkið grét og barmaði
sér í Kapela, hvað öll sveitin varð hamslaus af reiði í garð úlfsins, þessa
villidýrs, þessarar blóðsugu. Karlmennirnir í sveitinni fóru út með byssur
og úlfanet; þeir flæmdu hann úr fylgsni sínu og ráku hann í netið. Þar
mætti hann dauða sínum, aldrei mundi sá úlfur framar drepa nokkra kind.
En það var lítil huggun, féð var jafn dautt fyrir því, og sorgin var mikil
í Kapela.
Tvö voru þau sem voru sorgmæddari en allir aðrir. Það voru þau afi
og Stína María, sá elsti og sú yngsta á Kapelabænum. Þau sátu í sólríkri
brekkunni bak við fjárhúsið og grétu. Hvað höfðu þau ekki oft setið þar
og horft á féð bíta á enginu rétt hjá, kyrrt og rólegt eins og engir úlfar
væru til í heiminum. Sumarlangt höfðu þau setið þar á hverjum degi, afi
og Stína María, afi til að verma kalda fætur sína í sólinni, Stína María
til að byggja sér bæ milli steinanna og hlusta á afa segja frá því sem
aðeins gamalt fólk veit. Þau töluðu um skógardísina sem greiðir hár sitt
með gullkambi, um álfana sem maður verður að gæta sín að hleypa ekki
of nálægt sér svo að þeir heilli mann ekki til sín, um vatnabúann sem slær
hörpu í dimmum ám og tröllin sem leynast í dimmum skógum og um
undirheimafólkið sem á heima langt niðri í jörðinni og ekki má nefna
með nafni. Um allt þetta töluðu þau afi og Stína María þegar þau sátu
bak við fjárhúsið; þau sem eru mjög gömul og þau sem eru alveg ný á
jörðinni skilja slíkt betur en aðrir.
Stundum fór afi líka með gamla þulu fyrir Stínu Maríu, þulu sem var
jafn forn og gamli bærinn í Kapela.
216