Tímarit Máls og menningar - 01.06.1979, Síða 95
Tu tu tu
ein kona vék ekki úr vegi. Hún stóð kyrr frammi fyrir Stínu Maríu, grá
var hún eins og skuggi, gömul eins og jörð og steinar, og hún tók ljósa
fléttu Stínu Maríu milli handa sinna.
„Ljósbarn“, tautaði hún, „glókollur, alltaf hef ég óskað mér að eiga
barn eins og þig.“
Hún strauk skuggahendi sinni yfir enni Stínu Maríu, og samstundis
gleymdi Stína María öllu sem henni hafði áður verið kært. Sól, tungl og
stjörnur mundi hún ekki framar, hún gleymdi rómi móður sinnar og nafni
föður síns, systkinum sínum, sem hún hafði elskað, og afa sem hafði borið
hana í fangi sér, ekkert af þessu mundi hún, allt heima í Kapela var máð
út úr endurminningu hennar. Hún vissi það eitt að féð með gullbjöllunum
var hennar eign. Og hún rak það aftur á beit inn í rökkurskógana, hún
fór með það niður að rökkurvatninu til að gefa því að drekka, og allra
minnsta lambið tók hún í fang sér og vaggaði því meðan hún söng: „Svona,
litla lambið mitt, veslings litla lamb!“ Því þau orð mundi hún, og þegar
hún söng þau fannst henni hún sjálf vera lítið lamb sem rataði ekki heim
til sín, og þá vöknaði henni um augu. En hver hún var, það vissi hún ekki.
A næturnar svaf hún í hellinum hjá konunni með skuggahöndina og kall-
aði hana mömmu. Hún tók féð með sér og það svaf við hliðina á henni,
henni þótti gott að heyra bjöllurnar klingja í myrkrinu.
Dagar og nætur liðu, mánuðir og ár. Stína María hélt fé sínu á beit
í rökkurskógunum, hún raulaði og lét sig dreyma við rökkurvatnið, tíminn
leið.
Og þögnin grúfði yfir ríki undirheimafólksins. Aldrei heyrði Stína María
annað en eigið raul, kliðinn í gullbjöllunum og fuglagarg utan úr sortan-
um þegar hún kom með féð niður að vatninu.
Svo sat hún þar einu sinni þögul, horfði á lömbin drekka, gáraði vatnið
með fingrunum og var ekki að hugsa um neitt. Þá heyrðist allt í einu svo
sterkur dynur að öll víðáttan yfir rökkurvatninu lék á reiðiskjálfi, og
þessu fylgdi svo sterk rödd að trén svignuðu í rökkurskóginum og yfir
ríki undirheimafólksins þrumuðu orð sem voru jafn forn og gamli bærinn
í Kapela.
Tu tu tu,
eins margar ær
í dag og í gær,
skýli þeim skíðveggur hár.
221