Tímarit Máls og menningar - 01.06.1979, Page 96
Tímarit Máls og menningar
Stína María hrökk upp eins og af svefni.
„Já, afi, hér er ég,“ hrópaði hún.
Nú mundi hún allt. Mundi afa sinn, mundi róm móður sinnar og nafn
föður síns, minntist þess hver hún var og vissi að hún átti heima í Kapela.
En hún var hjá undirheimafólkinu, það mundi hún líka. Hún vissi að
hún var fangi þar sem hvorki var ljós af tungli né stjörnum. Þá hljóp hún
af stað. Ærnar og lömbin fylgdu henni eftir, þau runnu að baki henni eins
og grár straumur gegnum rökkurskógana.
En undirheimafólkið, sem hafði heyrt drunurnar og röddina, þyrptist nú
fram úr hellum og gjótum fjallanna. Þau hvísluðu hamslaus hvert að öðru
og augu þeirra voru svört af reiði. Þau horfðu á Stínu Maríu og æstur
kliður fór um hópinn, þau bentu á hana og sá grái sem hafði sótt hana
upp á yfirborð jarðar kinkaði kolli.
„Látum hana sofa í rökkurvatninu,“ tautaði hann. „Verður hvort sem
er aldrei friður meðan ætt hennar býr í Kapela. Látum hana sofa í rökkur-
vatninu."
Og þegar í stað umkringdi undirheimafólkið Stínu Maríu eins og skugg-
ar. Og þau gripu hana og báru hana niður að vatninu þar sem þokan
grúfði.
En konan sem Stína María hafði kallað mömmu rak upp hást óp, og
þannig hafði enginn nokkru sinni æpt meðal undirheimafólksins.
„Glókollurinn minn“, æpti hún. „Ljósbarnið mitt!“
Hún ruddi hinum frá og vafði skuggahandleggjum sínum utan um
Stínu Maríu. Og augu hennar voru svört af reiði þegar hún horfði kring-
um sig á undirheimafólkið, rödd hennar var hás þegar hún hrópaði til
þeirra:
„Eg sjálf svæfi barnið mitt og enginn annar þegar tími er kominn að
sofa.“
Hún greip Stínu Maríu í fang sér og bar hana að vatninu, undirheima-
fólkið stóð kyrrt og beið.
„Komdu, komdu, glókollur minn,“ tautaði hún, „komdu nú að sofa.“
Yfir rökkurvatninu grúfði þokan dimm. Hún vafði hjúp sínum um Stínu
Maríu og konuna sem bar hana. En Stína María sá glampa á vatnið undir
fótum sínum, þá grét hún ofurlítið og hugsaði: „Svona, litla lambið mitt,
Kapela sérð þú aldrei framar.“
En konan sem hún hafði kallað mömmu strauk skuggahendi sinni yfir
vanga hennar og hvíslaði:
222