Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Page 17
Kristján Árnason
Tvö ljóð um líf
HELLISLÍF
Veit þá nokkur, nema dauðinn,
hann sé líf en lífið dauði?
Evrípídes
Við erum fangar, hlekkjaðir inni í helli,
með höfuðin skorðuð föst í egghvössu grjóti,
en eigum þá von, að blys að baki okkar felli
bjarma sinn stöðugt á klettavegginn á móti,
svo skoða við megum í skímunni kynlegar myndir,
skugga, sem birtast og taka á sig margskonar lögun,
enn nokkra hríð, í stað þess að bíða þess, blindir,
að blasi við okkur, í fjarska, skínandi dögun.
Því hellisins veröld er sú eina er við þekkjum,
og allir þeir hverfulu skuggar sem framhjá streyma
hafa þann kost að hjálpa okkur til þess að gleyma. . .
— enda erum við fangar, fjötraðir þungum hlekkjum,
og hljótum um síðir að venja okkur af þeim ósið
í hellisins myrkri að láta okkur dreyma um ljósið.
7