Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Blaðsíða 109
Isabelíta
unnusta mannsins sem brosti á dagatalinu. Hún gekk út á völlinn
með honum og tók meira að segja blómahattinn af konunni og setti
hann á sig. Síðan hafði hún gefið manninum nafn og kallað hann
Orlando. Og hann sagði alltaf við hana: „Augun þín blíð, ástin mín
fríð.“ Það er líka hægt að syngja þetta, en Orlando sagði það án þess
að syngja. Smátt og smátt fóru þau að venja komur sínar á völlinn og
dveljast þar lengi hverju sinni, meðal blómanna. Einu sinni ýtti
Orlando tannkremstúbunni til hliðar svo að hann gæti sýnt henni
stjörnuna sem ætíð fylgir tunglinu. Oðru sinni hafði hún komið á
undan Orlando á völlinn og þá úði allt og grúði þar af krókódílum.
Þeir komu í áttina til hennar og hún gat sig hvergi hreyft og hún
hljóðaði upp og kallaði á Orlando í örvæntingu sinni og þá kom hann
fljúgandi á hvítum hesti með öxi sem var svo ný að vörumerkið var
enn á skaftinu. Og hann hjó í sundur að minnsta kosti tuttugu
krókódíla. Æ, hvað þessar minningar voru ljúfar, og hvað Orlando
hafði verið góður þegar hann tók mjúklega um hönd hennar og bar
hana upp að heitu andfiti sínu og sagði: „Isabelíta, ég elska þig!“
— Eg vil ekki að þig skorti neitt, en þú átt heldur ekki að hafa of
mikið. Auðvitað verður þú að hegða þér sómasamlega.
Þetta var rödd mannsins, og í þetta sinn hrökk hún í kút.
— Já, herra, sagði hún.
— Sjáðu nú, þarna er kofinn okkar.
Hún nam staðar til að horfa. Það var ekki mikill munur á þessum
kofa og kofanum heima.
— Flýttu þér nú, ég ætla að þvo mér, sagði maðurinn og sneri baki
í hana. Hún stóð kyrr og horfði og þorði ekki inn. Síðan leit hún á
manninn til að sjá hvað hann aðhefðist; hann var þá lagstur á hnén á
skurðbakkann, studdi sig með höndunum, laut fram og stakk höfð-
inu í vatnið. Síðan dró hann það rennblautt upp úr vatninu. Þá var
það örlítið hvítara en áður. Hann tók sápustykki upp úr vasa sínum
og tók til við að sápa sig. Isabelíta hafði ekki augun af honum þótt nú
væri tekið að skyggja og vart sæist handa skil. Loks sá hún það sem
hún vildi ekki sjá: í rökkrinu glitti í mjólkurhvíta mynd nýþvegins
höfuðs. Og þá rak hún upp óp:
— Orlando!
Og hljóp af stað, frávita af skelfingu, inn í skógarþykknið.
Morguninn eftir var himinninn þungbúinn og fólkið var snemma á
99