Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Síða 84
Elías Mar
Bið
Þessa litlu blokk fann ég í vasa mínum áðan, og ég ætla að skrifa í
hana á meðan ég bíð. Ég veit nú ekki hvað, ekki ennþá. Blýantinn
fann ég líka, í öðrum vasa samt, verst hvað hann er illa yddur. Ég
verð að skrifa mjög laust og gæta þess vel að brjóta hann ekki. Það er
skrýtið að ég er búinn að fletta blokkinni tvisvar og það stendur
ekkert skrifað í hana sem getur hjálpað mér. Nema þetta nafn hér
framan á: Magnús. Ekki er það mín rithönd, og eiginlega engin
rithönd, heldur blokkstafir og skrifaðir með bleki á hvítan miða.
Blokkin er blá að framan og grá að aftan. Ég á ekki að vera að skrifa
svona vitleysu eins og það hvernig hún er á litinn, heldur eitthvað
skynsamlegt. Þetta nafn Magnús: Heiti ég kannski Magnús? Það held
ég ekki, ég er eiginlega alveg viss um að ég heiti ekki Magnús, en hvað
heiti ég? Það veit ég bara ekki og man það ekki, ekki í svipinn, fremur
en annað, en það getur komið. Ég ætla að reyna að skrifa hægt svo að
blokkin endist. Fólkið hér í kringum mig er farið að taka eftir því að
ég er að skrifa. Mér er sama. Þetta er ekkert illilegt fólk og segir ekki
neitt. Það situr hér á stólunum í kring og á langa bekknum við
vegginn beint á móti og sumir eru að líta í blöð sem liggja frammi á
stöðum eins og þessum. Ég vildi annars að það væri hér einhver með
mér. Það er undarlegt að ég skuli hafa verið skilinn hér eftir einn.
Einhver hefur þó fylgt mér hingað. Hver var það? Ég ætla að reyna
að rifja það upp og hætta að skrifa. Þetta er flest miðaldra fólk,
eitthvað yngra en ég sjálfur, flest, konurnar fleiri. Einn unglingur þó,
strákur um tvítugt. Situr sama megin og ég og ég sé hann varla, er
ekkert að glápa á hann, en mér sýndist áðan að hann væri laglegur
eins og stúlka. Við erum á biðstofu, en ég er ekki alveg viss um hvort
það er læknisbiðstofa, eða eru til aðrar biðstofur? Það eru allir ósköp
rólegir, ég er líka rólegur. Ég verð samt dálítið eirðarlaus stundum,
stutt í einu samt, aðallega þegar ég reyni að hugsa fast og rifja upp. Ég
74