Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 62
Tímarit Máls og menningar
réttindum manna, og er það ekki í vorrar tíðar anda, að þraungva um þessi
réttindi."6 Þingmenn tóku almennt undir þessi orð og bænaskránni var
vísað írá nefnd með 16 atkvæðum.
Strax á næsta þingi, árið 1849, kom málið aftur fyrir þingmenn og nú í
formi þegnlegrar uppástungu þingmannsins úr Barðastrandarsýslu, Eyjólfs
Einarssonar hreppstjóra.7 Ekki voru undirtektir þingmanna jákvæðari í
þetta sinn svo forseta fannst ekki einu sinni taka því að bera málið undir
atkvæði og féll það þar með frá nefnd.
En áhuginn á takmörkun öreigagiftinga var ekki þar með úr sögunni.
Málinu var reyndar ekki hreyft á þingi næstu 10 árin, en 1859 kom það fyrir
enn á ný, nú í formi bænarskráa úr Suður-Þingeyjarsýslu og frá Þinghöfða-
fundi. Nú höfðu veður skipast í lofti og málið féll í betri jarðveg en fyrr.
Þingmenn samþykktu að skipa nefnd, og það fimm manna frekar en þriggja.
Nefndin tók eindregið undir kvartanir bænarskránna og eftir allmiklar
umræður var samþykkt, með 16 atkvæðum gegn 9, bréf til konungs þar sem
beiðst var lagaboðs þess efnis:
að alþekkta óráðs- og óreglumenn og ónytjunga megi ekki gefa í
hjónaband hér á landi, nema sveitarstjórnin í þeim hrepp, hvar
maðurinn á framfærisrétt, samþykki það, eða svaramenn hjónaefn-
anna vilji ábyrgjast, að ekki standi af þeim sveitarvandræði í hin næstu
3 ár . . . 8
Ekki var stjórnin í Kaupmannahöfn hrifin af þessum hugmyndum og
taldi sig enga ástæðu hafa til að fallast á breytingar á hjúskaparlögunum.9
Spurningin sem meðferð öreigagiftinganna hlýtur að vekja er hvernig
megi skýra þessa sýnilegu kúvendingu í afstöðu þingsins árið 1859. Nú var
fyrra frjálslyndi rokið út í veður og vind en íhaldssemin og haftastefnan
orðin alls ráðandi.
Sverrir Kristjánsson, sem fjallar nokkuð um þetta mál í ritgerð sinni um
Alþingi og félagsmálin, rekur frjálslyndi þinganna 1847 og ’49 til almennra
umbrota í pólitískum málum í Evrópu um miðja 19. öld.10 Hinn nýi
innflutti ídealismi varð þó ekki langlífur og gufaði algerlega upp fyrir því
sem Sverrir kallar „barlóm byggðanna“, er harðna tók á dalnum á seinni
hluta 6. áratugarins. Ekki á ég auðvelt með að samþykkja þessa skýringartil-
raun, einkum þar sem hún vekur mun stærri vandamál en hún leysir. Ef við
rekjum vaknandi þjóðernisvitund Islendinga til evrópsks frjálslyndis, hvers
vegna hvarf þessi nývaknaða vitund þá ekki þegar Islendingar snéru aftur til
fyrri íhaldssemi? Þar að auki, ef andstaðan gegn takmörkun öreigagiftinga
stafaði af innfluttu frjálslyndi þá verður danska valdið helsti boðberi þeirrar
460