Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Page 89
Draumur sem aðeins var dreymdur til hdlfs
Tatarar
Tatarar eru tyrkversk þjóð. Tyrkversk mál eru töluð af u. þ. b. 60 miljónum
manna í Evrópu og Asíu. Langfjölmennastir eru tyrkir í Litlu-Asíu og á
Balkan, en tyrkneska (osmanli) mun vera móðurmál á að giska 40 miljóna
eða 2A allra tyrkverja. Annars greinast mál þessi í 7 flokka með 20
þjóðmálum. Azeri tala 6,5 miljónir manna í Azerbajdzjan í Sovét og
Norður-Iran; úzbekska er móðurmál a. m. k. 6 miljóna í sovétlýðveldinu
Uzbekistan og víðar; á tatörsku mæla um fimm miljónir manna, flestir
búsettir við Volgu, þar af hátt í tvær miljónir í Tataríu. Nærfellt allar
tyrkverskar þjóðir játa múhameðstrú, og menningarheimur íslamskra þjóða
og samskipti þeirra á milli urðu sú þjóðbraut sem opnuðu Túkaj og verkum
hans leið út í hinn stóra heim.
Forntyrkverskar áletranir frá 8. öld hafa fundist í Mið-Asíu og eru það
elstu heimildir um þennan málaflokk. — Þjóðarheitið „tatarar" var fyrst
notað um eina af þeim mongólsku kynkvíslum sem reikuðu um á svæðinu
suðaustur af Bajkalvatni, en færðist síðar yfir á einn af þeim þjóðflokkum
tyrkverja sem veldi mongóla náði til. Rússar og fleiri rugluðu nöfnunum
gjarna saman og kölluðu bæði mongóla og tyrkverja einu nafni tatara
(„Tatarska okið“). Er vestasta ríki mongóla (Gullna hordan) liðaðist í
sundur á 15. öld, reis upp sjálfstætt ríki („khanat") með miðstöð í Kazan,
hjarta Tataríu. Stóð það í röska öld eða þar til Ivan grimmi vann Kazan
1552. Var nú hlutverkum skipt og máttu tatarar og skyldar þjóðir um langan
aldur þola yfirdrottnun rússakeisara. Undu þeir því að vonum illa og risu
oft upp gegn oki. Veittu þeir t. d. bæði Stenku Razín og Jemeljan Púgatsjov
lið. Tunga þeirra og menning bjuggu við kröpp kjör en héldu þó velli.
Það má nærri geta hvílíkt happ það var tatörum að eignast þann afreks-
mann sem Túkaj var á þeim tíma þegar mest reið á að notfæra sér
ellihrumleika keisaraveldisins til að bjarga og efla sjálfsvitund og virðingu
þjóðarinnar. Það atlæti sem umheimurinn sýnir minningu hans nú er
heilladrjúgur styrkur lítilli þjóð sem á í vök að verjast í þjóðahafi án þeirrar
„dýrlegu einangrunar" sem íslendingar hafa notið góðs af.
Stjörnumerki Púskíns
Þessu spjalli skal lokið með orðum sovéska skáldsins Míkhaíls Lúkoníns um
Habdúllu Túkaj: „Hann rann upp á festingu skáldskapar í heimi hér sem
stór og skær stjarna. Ef þú lyftir höfði, sérð þú hana i stjörnumerki Púskíns.
Af hverju Púskíns? Af því að það er svo margt skylt með þessum skáldum
ólíkra tíma og ólíkra tungna, og þú munt finna, hve þessi skyldleiki örvar
hjartslátt þinn.“
487