Tímarit Máls og menningar - 01.11.1986, Síða 109
/ ágústlok
bakkann. Það glampaði á rauð sóltjöldin, fólkið streymdi linnulaust
framhjá, en það var þögult. Sama fólkið og áður sat fyrir framan Café
de la Paix og það leit út eins og áður, en í kringum það var nú þögn.
Þegar við komum að ferðaskrifstofunni staðnæmdist Winní og vildi
ekki fara með mér inn. Einhverra hluta vegna vildi hún það ekki. „Þú
getur farið inn og gengið frá þessu einn,“ sagði hún.
Andartaki síðar kom ég aftur án þess að hafa gengið frá nokkru.
„Ertu nú alve^ viss?“ sagði ég við hana. „Því við verðum að ákveða
þetta núna. Eg heyrði manninn inni segja, að seinasta skipið til
Esbjerg færi annað kvöld. Og í dag var þýsku landamærunum lokað.
Ef við ætlum heim verðum við að taka lestina til Antwerpen í
fyrramálið."
Við stóðum stundarkorn þegjandi og horfðum hvort á annað.
Yfir okkur var þögnin. Eg tók undir handlegginn á Winní og við
gengum spölkorn. Það glampaði á rauð sóltjöldin. A torginu fyrir
framan Café de la Paix sat sama fólkið og áður og leit út eins og áður.
Það sat þögult eins og steingervingar, starði gegnum einglyrni og
stangargleraugu inn í heim sem var dauður fyrir þúsundum ára. Og
niðri í hliðargötunni stóð sama fólkið í sömu biðröðinni fyrir framan
glerhurðina. Það stóð þögult og þolinmótt og beið þess að verða
hleypt inn í hópum. Síðan kom það út um aðrar dyr með kringlóttu
málmhylkin sín.
Winní stóð kyrr og horfði á fólkið. Smám saman varð hún grá í
framan og svo fór hún allt í einu að gráta. Hún grét hátt og
taumlaust. „Æ, ég get það ekki,“ sagði hún hágrátandi, „ég get það
ekki. Eg get það ekki.“ Hún hélt áfram að gráta og segja þetta.
Þögult, ókunnugt fólk gekk framhjá og horfði á hana rétt sem
snöggvast. Eins og það furðaði sig á því hversvegna hún stæði þarna
grátandi.
Eg fór inn og náði í tvo farmiða með síðasta skipinu frá
Antwerpen.
Þetta kvöld var París hálfmyrkvuð, og við gengum gegnum
Montmartre og upp allar tröppurnar að Sacré-Cæur til að horfa á
það. Við stóðum lengi þögul úti við varnarmúrinn. Djúpt fyrir neðan
flöktu nokkrar ljóstýrur, en í fjarska hvelfdist þétt svartblátt myrkrið
yfir sléttuna.
507