Tímarit Máls og menningar - 01.12.1993, Page 76
samferðamaður hans í Svefiihjólinu er að
lesa Mylluna fer ekki hjá því að grúskeðli
veki löngun til að lesa einnig Mylluna á ný.
Og það rennur upp fyrir lesandanum að
svona gæti hann farið hring eftir hring,
leitandi að öðru verkinu í hinu, fastur í
snúningi sem bæði verkin fjalla um og vísa
til með titli sínum. Þó að verkin snúist
þannig á vissan hátt saman fer því fjarri að
annað snúist eingöngu innan í hinu; fremur
má segja að hjól þeirra kræki hvort í annað.
II
Allir lesendur bókmennta hafa einhvem-
tíma velt því fyrir sér hvernig sambandi
skáldverka sé háttað. Hugsun og umræður
fólks um bókmenntir lúta oft mjög að slík-
um samböndum; lesendum finnst ein bók
minna á aðra, einn höfundur líkjast öðrum;
veki verkið hrifningu er eitthvert stórskáld
gjaman dregið fram til samanburðar. Mað-
urinn er samanburðarvera. Enda er það svo
að í ýmsum eigindum skáldverks — stíl,
myndmáli, persónusköpun, viðfangsefni,
atburðasviði — enduróma önnur verk og
stundum komum við þeim jafnvel umsvifa-
laust fyrir okkur. Allir lesendur stunda því
bókmenntasögu. Eitt áhrifamesta hugtak
bókmenntasagnfræðinnar er meira að segja
í mjög almennri notkun, en það er einmitt
hugtakið áhrif. Jafnt gagnrýnendur sem
svonefndir „almennir lesendur" styðjast
mjög við ,,áhrif‘ til að koma sögulegri
skipan á bókmenntirnar. Þannig kynni ein-
hver að bregðast við ofangreindri lestrar-
reynslu með því að segja að saga Boruta
hefði hreinlega haft áhrif á Gyrði og þar
með á Svefnhjólið. Samkvæmt þeim hugs-
unarhætti væri þó Ódysseifskviða líklega
sýnu atkvæðameiri sem mótandi afl á
Svefnhjólið.
Freistandi er og að halda því fram að
höfundur hafi þá fyrst tryggt sess sinn í
bókmenntasögunni þegar hægt er að full-
yrða að hann hafi haft veruleg áhrif á þá
sem ,,á eftir“ koma. Hann hefur þá í vissum
skilningi ,,getið“ þessa afkomendur sína og
þeir hafa sest að á ,,föðurleifð“ sinni. Ef
höfundar ná vissri ,,stærð“ er svo að vísu
varla hægt að tala um að einhver hafí haft
áhrif á þá — þá hafa þeir flutt hlutverk
föðurins með sér upp á guðastall. Þannig
þætti mörgum fráleitt að tala um að
Shakespeare hafi orðið fyrir áhrifum frá
Plútark í þýðingu Thomasar Norton; við
segjum að hann hafi ,,unnið“ úr þessu verki
(Ævisögum göfugra Grikkja og Rómverja)
eða ,,sótt“ efnivið í það. (Og hugsanleg
áhrif leikskáldsins Marlowes fara skjótt
sömu leið.) Hinsvegar eru engin takmörk
fyrir því hvað Shakespeare hefur haft mikil
áhrif á eftirmenn sína.
Innan bókmenntafræðinnar hefur á und-
anfömum aldarfjórðungi talsvert borið á
nýju hugtaki (þótt það hvíli á gömlum hug-
myndum) sem meðal annars hefur verið
stefnt gegn blindri notkun áhrifahugtaks-
ins. Þetta er hugtakið textatengsl („inter-
textuality“ á ensku og samsvarandi orð á
ýmsum öðrum tungumálum). Saman beina
þessi hugtök, áhrif og textatengsl, athygli
að ákveðnum vanda sem brennur ekki síst
á aðstæðum íslenskrar bókmenntafræði.
Annað hugtakið er sótt til hversdagsmáls
og virkar því sem „náttúrulegt“ orð sem
auðgripið er til. Fólki kann því að þykja það
fara vel í skýrmæltri bókmenntaumfjöllun
sem laus er við fræðilegan aukafarangur.
Hitt hugtakið er framandi og ókennilegt;
talandi dæmi um það hvernig bókmennta-
74
TMM 1993:4