Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Page 45
[----] þá hríslaðist eitthvað um mig, sem var allt annað en ég gat
fundið til af kvæðum hinna ungu skáldanna, þó að sum þeirra
gætu ort býsna vel. Ég skal hvorki reyna að lýsa því né skýra, hvað
því olli: orðin, tungutakið, flutningurinn? En um áhrifin var ekki
að villast.4
Og þegar Davíð varð sextugur lýsti skáldbróðir hans, Jóhannes úr Kötlum,
áhrifum Svartra fjaðra á þessa leið:
Hafi nokkru sinni leiftrað af eldtungu í íslenzkri ljóðlist, þá var
það þegar Davíð Stefánsson hóf þar flugið á sínum „svörtu fjöðr-
um“. Og það varð langt og leikandi flug. Heimasæturnar stóðu á
hlaðinu, fullar eftirvæntingar og hlustuðu á þessa nýju, endur-
leysandi tungu. Jafnvel karlarnir, feður þeirra, kinkuðu ruglaðir
kollinum og fyrirgáfu þeim. Enginn stóðst þennan magnaða söng.
Víkingurinn frá Fagraskógi fór með ærslum um útnes og afdali,
gerði usla í hverju koti og hugskoti, loft varð þrungið bríma og
sindrum — þetta var einmitt tónninn sem okkar lífsþyrsta unga
Island vantaði.5
Hrollurinn — svölun lífsþorstans — dauðinn og ástin. Tvö andstæð skaut,
en þó órjúfanlega tengd. Á þá strengi, sem þar liggja á milli, lék hinn ungi
töframaður seið sinn.
Erum við hér vitni að ævintýrinu um Aladdín og lampann eða dæmisög-
unni um Kólumbus og eggið? Hvað var svona nýtt?
I þriðja bindi Meginstrauma, sem fjallar um frönsku rómantíkina, segir
Georg Brandes:
Af öllum tilfinningum, sem skáldlistin fæst við, er hin erótíska
fyrirferðarmest og tekur lesendur yfirleitt sterkustum tökum.
Skynjun og lýsing hins erótíska er mikilvæg til skilnings á anda
tímans. Af skynjun hins erótíska er unnt að lesa — líkt og af
nákvæmu mælitæki — styrk, eðli og hitastig tilfinningalífs ákveð-
ins tímaskeiðs.6
Ætli það sé fjarri sanni að það hafi verið meðferð hins erótíska sem var
höfuðnýjung Svartra jjaðra.
Vissulega höfðu skáld eins og Jónas Hallgrímsson og þó einkum Hannes
Hafstein birt kynósa lýsingar hinna vænstu ástmeyja. En munúð, unaður og
losti líkamlegra, stundlegra ásta höfðu aldrei verið lofsungin með áþekkum
hætti og í Svörtum fjöðrum. Þegar þá líka þessir fagnaðarsöngvar lífsþorstans
og lífsdýrkunarinnar voru fluttir á einföldu og auðskiljanlegu máli með tón
frá þjóðvísu og danslagi var von að heil kynslóð fagnaði fengnu frelsi undan
TMM 1995:2
39