Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Qupperneq 63
Spariröddin mín titrar svolítið þegar ég spyr: — Og er það bara ég
sem á að halda róseminni? Og gagnvart hverju sem er kannski? —
Hann veit hvað mér líður, væri ekki bjargvættur vissi hann það ekki,
og hann hnikar tissjúpakkanum á borðinu ögn nær mér.
— Sjáðu nú til — segir hann, og þannig áfram, áfram, og móðan
fyrir augum mínum þynnist út í þessa venjulegu, gráu þoku meðan
ég hlusta með öðru eyranum á kunnuglega þuluna.
Vissulega er þetta slæmt — segir hann, honum er það alveg ljóst en
— og auðvitað eru þau, hann og kerfið, öll af vilja gerð en — og svo
eru það reglur og í rauninni má hann ekkert gera, hann má bara
framfylgja skipunum og reglugerðum, því miður, því miður. En ef ég
útfylli þessa pappíra og kem með svona vottorð og skila ljósritum af
öðrum pappírum, kannski — ef — og þó. Og svo auðvitað að halda
róseminni, þótt hann, bjargvætturinn minn, skilji mætavel. Og svo
framvegis.
Skilji! Hvað ætli hann skilji? Sjálfsagt skilur hann pappíra, eyðublöð,
vottorð, ljósrit. Og huggulegu nýju íbúðina sína upp í Grafarvogi eða hvar
svo sem í ósköpunum hann hefur potað sér undir þak í kerfinu.
Framtíð íslands: sprottin upp úr steypublokkunum í Vogunum eða
nærlendis; fermingarmyndin, stúdentsmyndin, námslánin — brúð-
kaupsmyndin ef þau hafa beygt sig fyrir óskum pabba og mömmu, —
frumburðurinn fæddur í Svíþjóð eða kannski Noregi, húsbréfin uppá
nýja blokk, eða ef þau eru heppin, parhús. Meðalmennska íslands árið
1994, amen og hallelúja.
Og örugglega komin í beinan karllegg af Noregskonungum. Engin
vafasöm formóðir sem laumaðist út í franska eða hollenska duggu í leit
að ævintýri inn í grátt hversdagslíf fátæklingsins; engir bastarðar þar á bæ.
Móðuramma mín hafði brúnan, hlýjan hörundslit og tinnusvart
hár hennar skartaði gljáa sem ögraði snjóþungum íslenskum vetr-
arbyljum. Og hún átti gamalt silkiskjal, slitið og upplitað af þvottum
og brúki, sem hún hafði erft eftir ömmu sína. Slíka dýrgripi öðluðust
fátækar alþýðukonur einungis í skáldsögum og erlendum duggum.
Og þær báru þá með reisn og skiluðu þeim stoltar í arf til afkomenda
sinna ásamt kitlandi dulúð dökkra lokka og ósagðra sagna. Enga
konu hef ég þekkt með jafn ríka ættarkennd og hana ömmu mína,
þessa ættlausu konu með sitt hlýja hörund og jafn skjót til hláturs
sem tára.
TMM 1995:2
57