Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Blaðsíða 65
fram af brúninni; þú hættir ekki fyrr en þú hefur gengið af mér
dauðum, er það? —
Víst hefí ég talað við hann — milljón sinnum — vakað með honum
langar ástarnætur, hlegið og talað, talað og grátið. Deilt með honum
sorg, gleði og beði og átt með honum þessi þrjú börn. Átt og misst.
Hví skyldi ég þurfa að tala máli þeirra við hann?
Hví skyldi hann ekki gera það, bjargvætturinn, sem ekki er sam-
flæktur honum í böndum ástar, blóðs og tára?
Uns dauðinn oss að skilur. Djöfuls ...
Skilur þessi ungi maður ekki hve dauðinn er sár þegar hann er
lifandi? Svo óendanlega sárari.
— Nei, segi ég, — það er ekki til neins. —
— Foreldrar þínir? — spyr hann vongóður.
Tissjúpakkinn loksins nýttur eins og til er ætlast.
— Foreldrar mínir — segi ég, yfirvegaða röddin mín kæfð í bleikan
pappír vættan tárum og hor, — foreldrar mínir eru gömul, skilurðu það,
gömul. Þau eru búin að borga skatta og skyldur síðan löngu áður en þetta
land varð land, — og skipti yfir í bláan pappír, — og það hef ég gert líka,
borgað skatta í tuttugu ár eða guð veit hvað og ég held áfram að borga
skatta þótt ég fái ekki að vinna fyrir þeim og eigi ekki neitt og sé ekki neitt
— og núna er ég búin að fá nóg, skilurðu það, nóg, nóg, nóg...
og hrifsa gult bréfsnifsi úr kassanum á flótta mínum.
Heyri að hann kallar eitthvað á eftir mér, en ég flý, blind, heyrnar-
laus, framhjá harðviðarborðum prýddum ungum stúlkum og nýjustu
Macintoshtölvum, framhjá leðurlíkisklæddum biðstofuhúsgögnum
og sígrænum stofnanaplöntum.
Guð minn, guð minn, hefurðu yfirgefið mig?
Úti á gangstéttinni skellur hlý og miskunnarlaus birtan af sól guðs
beint í tárvott andlit mitt. Vorið góða, grænt og hlýtt...
Samt ætti að vera snjór núna, þessi blauta, úrsvala Reykjavíkur-
slydda; gangstéttin illfær fyrir snjóruðningunum gráum af bílaút-
blæstri og for sem rutt er af götunum til að greiða Bjarti í Sumarhús-
um borgarinnar leið.
Það er svo margt, sem ætti að vera öðruvísi en það er. Sólin til dæmis.
Hún skín í óhömdu veldi vorsins og afhjúpar tár mín og eymd og
vekur brumknappa trjánna.
TMM 1995:2
59