Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Side 66
Meira að segja grasið lifnar á ný, þessi örsmáu grænu strá, sem af
óskiljanlegri þrautseigju reyna að troðast upp um rifurnar milli steyptra
hellnanna í átt til birtu og yls, í átt til sólarinnar.
Kannski það sé satt að hún veki upp frá dauða.
Það var vor og sólarbreyskja þegar drengurinn minn dó. Leysingar, og
uppúr mýrunum lagði þennan sérstaka eim, sem fylgir hlýjuin vor-
dögum: lyktin af rotnandi stör í tjörnum og blóm sem legið hafa undir
ís vetrarlangt og eru fyrir afli vorsins að breytast í næringu komandi
sumargróðurs.
Angan af þornandi túnum og gróðurlendi; af víðisprotum á leið
undan klakabrynju vetrarins. Vorangan landsins, sem þú fínnur aldrei
í borginni.
Skyldi litli, hlýi kroppurinn hans bera þessa angan í dag, djúpt niðri
í moldinni þar sem hann bíður þess að verða næring?
Hárið hans var þakið slýi og rotnandi stör þegar við drógum hann
upp úr vatninu þennan sólbjarta vordag fyrir þúsund dögum, þúsund
löngum nóttum.
I dauðanum angaði hann af vori, og sólin skein nákvæmlega svona
í tárvana andlit mitt.
Gat ekki gætt hans . .. gat ekki gætt barnsins míns ... nei, ég má
ekki hugsa um það núna. Má það ekki, aldrei, því það er liðið, búið og
ekkert fær því breytt.
Ég þarf að komast heim til barnanna minna, sem bíða eftir úrræð-
unum hennar mömmu, sem treysta því að mamma gæti þeirra. Sem
hafa lært að venjast því að heima — það er eitthvað hverfult sem aðrir
eiga og leyfa okkur að deila um stundarsakir í skiptum fyrir peninga.
Eða fyrir ... nei.
Nei, slíkt segir maður ekki við börnin sín. Slíkt tilheyrir heimi hinna
fullorðnu og er ekki hollt ungum barnssálum. Silkisjal og framandi
kryddvín í franskri duggu; hvað er það? Ævintýri, ævintýrið hreint og
ómengað. Hver vill skipta á austurlensku ævintýri fyrir viðskipti með
steypu og járn? Verður það ef til vill eini arfur minn til afkomendanna?
— Gerirðu þér grein fyrir að börnin þín liggja undir skemmdum?
Að þú ræður ekki við kringumstæðurnar, að þeim væri kannski betur
borgið hjá öðrum? Auðvitað bara um stundarsakir — hjá öðrum —
annars staðar — stundarsakir ...
60
TMM 1995:2