Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Blaðsíða 70
Staðfesta allt sem þau óttuðust mest þegar ég fór; staðfesta að allt
sem þau hafa unnið og barist fyrir og trúað á hafi verið troðið í svaðið.
Pabbi og mamma sem innrættu börnunum sínum lífsskoðun: að
okkur miðaði áfram, að við tækjum þátt í að byggja upp það sem þau
kölluðu réttlátt þjóðfélag. í landinu okkar; landinu sem loksins varð
okkar fyrir óbugandi frelsisþrá og fórnfúsa baráttu kynslóðanna. Þar
sem enginn þyrfti framar að eta auðmýktarinnar brauð úr hendi
höfðingjanna.
Foreldrar mínir, sem staðfastlega trúa því að orðin sveitarlimur og
þurfalingar séu horfín úr íslenskri tungu, að kerfið gæti barna sinna.
Allar litlu lygarnar mínar: nei, mamma, nei, pabbi, þetta gengur allt.
Segi þeim frá góðu einkunnunum barnanna til að leiða talið frá
hagræðingunni, sem svipti mig atvinnunni — allri hagræðingunni
sem skammtar mér frelsi, sem skammtar mér brauð.
Segi þeim hvernig ég bæti hag minn með lægri leigu hvert sinn sem
ég flyt, flyt í enn þrengra, enn niðurníddara. Segi að bráðum rætist úr
þessu.
Þegi um þá staðreynd að enginn kærir sig lengur um fertuga
menntunarlausa konu með takmarkaða starfsreynslu á hinum frjálsa
vinnumarkaði okkar lýðfrjálsa lands.
Að bjargvætturinn minn sé — nei, það segi ég ekki. Fátækrafulltrú-
inn, — hann er ekki til lengur — hann er draugur fortíðarinnar sem
þau kváðu niður í skiptum fýrir Velferðina. Og svo er kreppa núna,
það vita allir, og hún hlýtur senn að leysast, það vita líka allir.
Og ég segi þeim frá vinkonum mínum sem voru að fá vinnu sem
sönnun þess að brátt komi röðin að mér. Að ég hafi það í rauninni
ágætt — kannski er líka gott að vera um tíma heima hjá börnunum.
Og svo hef ég líka atvinnuleysisbæturnar.
Á ég kannski að segja þeim að ég eigi engar vinkonur, að þessar
heppnu konur eru í raun nafnlausar persónur úti í bæ sem ég heyri
aðra tala um; heyri útundan mér þegar ég hlera gírug á tal ókunnugs
fólks í strætisvagninum eða í biðröðinni við kassana í Bónus.
Segja þeim hvert frelsið og velferðin hafi leitt dóttur þeirra og
barnabörn — nei.
Nei, allt fremur en það. Því kannski rætist líka úr þessu, kannski er
þetta ekki svona, og því skyldi ég ekki verðskulda kraftaverk eins og
hver annar?
64
TMM 1995:2