Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Qupperneq 79
þessum gesti barkonunnar þinnar — sagði hann með lítið eitt kvak-
andi röddu og síðan í alvöru: — Hefurðu komist að því hvað hann
starfar? — Nei, það hafi sér, svaraði Kronstadt, ekki tekist, það er að
segja, veitingakonuna hafí líklega ekki rekið minni til þess, það hefði
verið ólíkt henni að liggja á þeim fróðleik. — En hlustaðu nú á, sagan
er ekki á enda! —
Eftir að hafa reykt ofan í sig tvær eða jafnvel íjórar sígarettur þar
sem hann húkti á stól sínum, hafi hann staðið á fætur og gengið að
strætisvagnabiðstöðinni á aðalgötunni sem var ekki langt undan. Þar
hafi hann þurft að bíða drykklanga stund eftir næsta vagni, en rign-
ingin sem skall á hafi vætt hár hans, þar sem hann hafi rekið hausinn
hvað eftir annað undan þaki bárujárnsskýlisins og gáð í þá átt sem
vagninn hlyti að koma úr; loks hafi komið vagn, og hann með honum
niður í bæ. — Ég fór að sjá klámmynd í fyrsta sinn á ævinni — hafi
hann játað fyrir barkonunni og hvolft síðan úr þriðja glasinu ofan í
galopið gin sitt.
Elskendurnir tveir sýndu nú á sér fararsnið; alla vega urðu höfuð
þeirra viðskila, og þau stóðu upp af kjaftastólum sínum sem voru
rauðmálaðir eins og hinir. Ungi maðurinn veifaði á þjóninn, sem
hallaði sér enn með krosslagða fætur upp að útvegg kráarinnar, og
þegar hann fýlgdi bendingunni og gekk framhjá mér yfir þornandi
jörðina og Mehlhaupt og Kronstadt hlógu við hlið mér ýmist skræk-
um eða gjallandi hlátri, fannst mér allt í einu sem þessi veitingagarður
væri heill heimur og jafnframt að sólin yfir höfði mér, sem hafði færst
í aukana, væri orðin að glottandi dvergi, sem gerði gys að hugsunum
mínum, að þeim Kronstadt og Mehlhaupt og hverju sem var og jafnvel
því líka hvernig pilturinn, um leið og hann tók við peningum til baka
með annarri hendi, tróð hinni ofan í rassvasa stúlkunnar.
Þá horfði ég út í bláinn stundarkorn, en skyndilega ískraði í garðshlið-
inu, elskendurnir leiddust út á götuna og yfirgáfu þennan heim minn
á sama óumbreytanlega hátt og þau höfðu komið inn í hann, og
Mehlhaupt varð enn fyrri til þeirra beggja að hætta að hlæja. — Sagði
hann eitthvað nánar frá klámmyndinni? — Hef ekki hugmynd um
það, þó kann svo að vera, en hafi svo verið —, ansaði Kronstadt —
hefur barkonan þagað vandlega um það. —
Meðan ég gaf þjóninum, sem strunsaði hjá með bakka hlaðinn
TMM 1995:2
73