Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Blaðsíða 82
af himninum, þjónn! — Já, viljið þér annan bjór? — Nei! Komið
heldur með einn — sérrí handa mér! Já, og líka sinn hvorn handa
þessum tveim dánumönnum við hitt borðið. — Þjónninn horfði á
mig svo forviða að það var engu líkara en að hann hefði aldrei vitað
til þess fyrr að einn gestur byði öðrum upp á drykk. Síðan skakklapp-
aðist hann, og það, að því er mér sýndist, ekki einungis af því að hann
var hjólbeinóttur, í áttina að gættinni á húsveggnum og hvarf þar
sjónum, og það var ekki fyrr en eftir heillanga bið, eftir að ég allan
tímann hafði ekki haft augun af þessari dimmu gætt, að hann birtist
aftur með bakka á framréttum handlegg sínum. — Þrír sérrí —, sagði
hann og raðaði þeim upp með miklum armsveiflum á borðið fyrir
framan mig.
Mér krossbrá, og ég fór að leggja við eyrun, en heyrði ekki neitt,
hvorki mál Kronstadts né skrækan hlátur hans, og Mehlhaupt þagði
líka, aðeins skrjáf í laufi, og bílarnir óku fram og aftur og aftur og fram.
Gott og vel, hugsaði ég með mér, ef til vill var það ekki út í hött, ráðríki
þjónsins, að hann skyldi synja þeim báðum um veigarnar. Þeir voru
að vísu að tala um náungann, það vekur þorsta, og sérhver góður
ræðumaður á heimtingu á drykk, en báðir tveir voru samt frekar að
tala gegn honum en með. Þeir hæddust að honum, án hluttekningar,
án hryggðar, án þess að bera velferð hans fyrir brjósti... Þeir voru —
eins og fólk er flest, og í trássi við alla lífsreynslu voru þeir bjartsýnir
og í besta skapi. — Já, þessi óhræsi áttu ekki skilið að þeim væri gefíð
í glas!
Að svo búnu tæmdi ég fyrsta staupið og þóttist vita að nú gæti
veitingakonan andað léttar og drukkið hvítvínið sitt, hún hafði tjónk-
að við hann, gestinn sinn, róað hann niður, hann mundi ekki framar
langa til að hlaupa yfir slitið bargólfið í þeirri trú að það væri tíglalagt
völundarhús verslunarmiðstöðvar. Og annað sérríglasið drakk ég líka
og hugleiddi hvernig hann hafi komist heim frá vínstúkunni og frá
henni, og hvort hann hafi kysst hana eða hún hann eða ekki; og þá
þreif ég þriðja glasið: Hver veit, hugsaði ég með mér, hver veit nema
þetta sé mitt síðasta sérríglas.
Þá rak Kronstadt enn upp skellihlátur, og Mehlhaupt tók undir með
honum.
Kristján Árnason þýddi
76
TMM 1995:2