Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Page 11
FRAMHJÁ ÞÖGNUÐUHOLTUM
vopnaða dýr á flótta og ofurselt ótta og hatri. Hér er harkalega deilt á
drottnunargirni mannsins og yfirgang. Þótt ekki sé beinlínis minnst á um-
hverfisvandann þá er hann orsök þess haturs og sjálfshaturs sem maðurinn
hefur áunnið sér með grægði sinni. Augnatóttirnar eru tákn dauðans og
maðurinn sér sinn eigin ótta, hatur og dauða ef hann svipast um: afleiðingu
gerða sinna. Sökin nagar samviskuna:
Verði þér dýri þóttans litazt um,
hvarvetna sérðu
augnatóttir fýlltar svörtu hatri
reka flótta þinn.
Dýr vopnsins!
Þær eru þú
og ótti þinn og hatur.
(Yfir heiðan morgun)
Nóvembermorgunn er sérstæð ádeila á mengun tækninnar og þung áminning
um afleiðingarnar. Heildarmyndin er svart-hvít og hugblærinn drungalegur.
Ljóðið hefst á morgunþögn sem er þrungin uggvænlegum, ítrekuðum grun.
Vængjatakið er einungis grunað og vísast að það verði aldrei raunverulegt
því að landið gæti verið sokkið og fuglinn enda ófleygur. En þessi kyrrð uggs
og snjókomu er rofin af öflugu skriðdýri tækninnar sem sundrar snjóhvít-
unni og við tekur svarthol sem getur vísað bæði til útblástursmengunar
bílsins í snjókyrrðinni og til áhrifa tæknimengunar í alheimi (enda staðar-
ákvörðunin lausleg). Ljóðinu lýkur, eins og sumum öðrum ljóðum Stefáns
Harðar, með torræðum táknmyndum. Hinn ófleygi fugl gæti verið sjálfur
maðurinn, mannkynið, og minningarhof hans geymir væntanlega arfleifð
hans. Hin austurlenska sorg er hvít og á minningu mannkyns fellur hvítur
sorgarsnjór.
Morgunn þögull sem grunað vængjatak
yfir gruni um sokkið land
unz utan úr logndrífunni
maður nokkur ekur bíl
á negldum hjólbörðum
og með fullkomnum ljósabúnaði
inn í eitt svartholið enn -
sem tilheyrir alheimi
samkvæmt lauslegri staðarákvörðun
Á minningarhof ófleyga fuglsins
hefur fallið austurlenzk sorg
(Tengsl)
TMM 1997:4
9