Tímarit Máls og menningar - 01.12.1997, Qupperneq 28
ATLl HEIMIR SVEINSSON
Mönnum ber að hafa sínar skoðanir, og það er allt í lagi að láta þær í ljós.
Það hafa Stockhausen og Darmstadtmennirnir eflaust gert.
En þetta gerir ekkert til. Listamenn láta ekki stjórna sér. Aftaníossum eða
epígónum er stjórnað og þeir vilja það. Listamenn stjórna sér sjálfir, þótt
ýmsum sem vilja skreyta sig með listamannsheiti finnist það ótrúlegt.
Og aftaníossar eru alltaf miklu fleiri en listamennirnir, og þess vegna ber
meira á þeim. Thor Vilhjálmsson kallar þetta hinn óskrifandi meirihluta.
Listamenn fara ekki eftir fyrirskrifuðum reglum, heldur búa til reglur, segir
Busoni einhvers staðar. Hitt er svo annað mál að allir listamenn verða fyrir
áhrifum því enginn er eyland stendur í miklu kvæði. Ég varð fyrir margvís-
legum áhrifum, án þess að bíða tjón á sálu minni, en hins vegar hef ég engan
látið segja mér hvað má og hvað má ekki gera.
8
Það er annarra að dæma um minn stíl, en mér finnst hann síbreytilegur. Það
er auðvelt að staðna, einkum hér á Islandi.
En strax í byrjun fannst mér ótækt að geta ekki notað alla þá hljóma sem
til voru. Ég vildi nota dúr og moll hljóma, en á nýjan hátt. Ýmsir töluðu um
að með þessum hljómum væri ekkert hægt að segja lengur, efhið væri
ofnotað og hætt að virka. Menn eins og Adorno og Metzger töluðu um hina
sögulegu tilhneigingu efhisins og fleira í þeim dúr, sem ég skildi aldrei. Og
frá upphafi finnast gamlir hljómar í verkum mínum, en vonandi séðir frá
nýju sjónarhorni.
Rímorð eins og „synd“ er banalt þegar það rímar á móti „mynd“ og „ást
sem aldrei brást“ er útjaskaður orðaleppur sem ekki segir neitt vegna of- og
misnotkunar. Það er mjög sjaldgæft og á fárra færi að gefa slíkum banalítetum
nýja, ferska og sanna merkingu. Láta þau segja eitthvað sem áður var óþekkt.
En það má líka segja að blái liturinn í málverkinu sé alltaf ferskur og nýr
ef það tekst að láta hann í nýtt og rétt samhengi. Við sköpum ekki listaverk
með því einu að afneita möguleikum.
Það er ekki gamaldags í sjálfu sér að nota þríhljóm, og ekkert nútímalegt
að nota stórar sjöundir eða litlar níundir. Það fer eftir því hvernig unnið er
úr efniviðnum. Menn gerast ekki nútímaskáld með því einu að afheita rími
og stuðlum. Fleira þarf til.
Ég gekk í gegn um tímabil þegar mér fannst ég verða að nota „gamla“
þríhljóma. Aldrei var um neitt afturhvarf að ræða hjá mér. Þvert á móti. Ég
notaði gamlan og þekktan efnivið á nýjan hátt.
Módernismi er vandmeðfarið hugtak og fyrir mér er hann spurning um
gæði fremur en tíma. Það skiftir litlu máli hvort listaverk er skapað nokkrum
26
TMM 1997:4