Tímarit Máls og menningar - 01.03.2000, Blaðsíða 52
RÓBERT H. HARALDSSON
síðar, þegar konur hafa hlotið sömu réttindi og karlar? Aðrir benda á að enn
sé full þörf á róttækri gagnrýni verksins enda batni staða kvenna löturhægt.
Ofangreind atriði sýna að þeir sem líta á Brúðuheimili sem siðbóta- og
ádeiluverk hafa úr ýmsu að moða. Raunar mætti vel hugsa sér að nota leikrit-
ið sem lesefni í inngangi að siðfr æði enda rótar það upp ýmsum grundvallar-
spurningum sem ræddar eru á slíkum námskeiðum. Má þar t.d. nefna þá
spurningu hvort réttlætanlegt sé að brjóta skýlausa siðareglu í nafhi siðferði-
legra verðmæta eða hina, hvort liggi til grundvallar siðferðinu, ástin eða rétt-
lætið. Skoða má verkið sem gagnrýni á fórnarsiðferði frú Linde eða á
borgaralegt siðferði Helmers. Einnig má lesa það sem athugun á siðferði
Nóru og siðferði kvenna. Og auðvitað má líta á verkið sem röksemdafærslu
þar sem þessum ólíku afstöðum til siðferðisins er hrært saman í allsherjar-
uppgjöri við siðferði Vesturlanda, líkt og George Bernard Shaw virðist gera.
Jafnvel þótt slíkur lestur á Brúðuheimili sé athyglisverður - og Ibsen ýti
greinilega undir hann - þá komumst við ekkert áfram í skilningsleit okkar ef
við lítum einungis á verkið sem rökfærslu um inntak siðferðisviðhorfa per-
sónanna. Þótt eitthvað sé t.d. augljóslega gruggugt í borgaralegu siðferði
Torvalds Helmer, virðist ekki rétt að segja að skoðanir hans séu beinlínis
rangar eða hann aðhyllist rotið siðferði. Meginvandi hans verður ekki leystur
með því að breyta inntaki skoðana hans. Raunar virðist Ibsen gæta þess að
eigna honum virðingarverðar skoðanir. Sá sem er of fljótur á sér að afskrifa
siðferði Helmers sem siðferði smáborgarans sér aldrei til botns í vanda hans.
Sama á við um persónu Nóru. Okkur verður heldur ekki ágengt í þessum
athugunum okkar ef við lítum á Nóru sem nokkurs konar fastafulltrúa
þeirra sem fylgja hjartanu og eðlishvötum sínum. Vera má að sú lýsing eigi
við um hana í upphafi verksins en hún getur hvorki verið lokapunkturinn í
umfjöllun um skilning Nóru sjálfrar á siðferðinu né þá afstöðu til siðferðis-
ins sem persóna hennar endurspeglar. Til þess að skilja Nóru er mikilsvert að
átta sig á því að hún breytist, endurfæðist í einhverjum skilningi í framrás
verksins.
Brúðuheimili býður lesandanum/áhorfandanum upp á skýr siðferðileg
álitamál til að glíma við, ekki síst afbrot Nóru, og þar eru einnig röksemdir
um slík brot (hennar og Krogstad). Hér verða færð rök fyrir því að þetta séu
ekki aðalatriði í siðffæði verksins en ég geri mér grein fyrir því að áður en
lokapunkturinn er settur aftan við efnið verð ég að útskýra hvers vegna
einmitt þessi álitamál eru í forgrunni leikritsins. Fyrsta skrefið í þeirri við-
leitni er að rýna í samræður þess og frásagnaraðferð Ibsens.
42
www.malogmenning.is
TMM 2000:1