Tímarit Máls og menningar - 01.03.2000, Page 60
RÓBERT H. HARALDSSON
Það er þegar á margra vitorði í bankanum að ég ætla að segja Krogstad
upp. Ef það spyrðist nú út að nýi bankastjórinn hefði látið konu sína
hringla í sér [...] Ætti ég að gera mig hlægilegan í augum allra starfs-
mannanna - vekja þá hugsun hjá þeim að ég sé háður allskyns ytri
áhrifum? Þú getur verið viss um að ég fengi fljótlega að kenna á afleið-
ingunum! (164)
Hreyfiaflið er í fullkominni andstöðu við það afl sem stýrir samræðum
Krogstads og frú Linde. Álit annarra ræður því hvernig Helmer orðar eigin
hugsanir, ekki aðeins við konu sína heldur einnig fyrir sjálfum sér. Honum er
lífsins ómögulegt að viðurkenna að hann er þræll allskyns ytri áhrifa. Og það
tekur hann langan tíma að koma orðum að því að hann hefur einkum per-
sónulega ástæðu til að reka Krogstad (þeir eru kunningjar frá æskuárum!).
Væri Krogstad í sporum Helmers myndi hann e.t.v. mæla eitthvað á þessa
leið: „Fyrir því liggur aðeins einkaástæða, að ég vilji reka þennan dugmikla
starfskraft, en staða mín í bankanum og önnur ytri öfl valda því að ég verð að
nefna ýmsar félagslegar og siðferðilegar ástæður." Óhugsandi er að Helmer
taki svona til orða. Honum er um megn að segja sannleikann um sjálfan sig.
Ólíkt Krogstad er hann flœktur í almenningsálitið. Hann áttar sig aldrei á því
sjálfur hvar mörkin milli álits annarra og hans eigin liggja. Hann er kjarna-
laus maður. Borgaraleg virðing er honum ekki eingöngu tæki heldur mark-
mið í sjálfu sér.
Orðavaðall Helmers nær hámarki þegar hann fréttir að besti vinur hans,
Rank læknir, hafi dregið sig í hlé til að deyja:
Veslings vinur minn. Ég vissi reyndar ég fengi ekki að halda honum
Iengi. En svona fljótt -. Og svo fer hann í felur eins og sært dýr. (195)
Svar Nóru er eitt af mörgum teiknum þess að verkið er meðvitað um
gagnrýni sína á orðagjálfur Helmers:
Fyrst það verðurað gerast er best að hafa um það engin orð. Ekki satt,
Torvald? (195)
En Helmer er ekki með á nótunum og breytir nú strax yfir í þátíð (þótt Rank
sjálfur sé ekki kominn yfir í ósveigjanlega þátíð):
Hann var okkur svo samgróinn. Mér finnst ég ekki geta hugsað mér
hann horfinn. (195)
Þessar tvær látlausu setningar eru með þeim mergjuðustu í öllu verkinu þótt
af nógu sé þar að taka. Með því að nota þátíð í fyrri setningunni sýnir Ibsen
okkur hversu auðvelt Helmer á með að hugsa sér að Rank sé allur. Hann getur
50
www.malogmenning.is
TMM 2000:1