Tímarit Máls og menningar - 01.03.2000, Page 73
ALVARLEGAR SAMRÆÐUR
NÓRA: Þá yrðu bæði þú og ég að breyta okkur þannig að Oo, Tor-
vald, ég trúi ekki lengur á neitt undursamlegt.
HELMER: En ég vil trúa á það. Segðu það! Breyta okkur þannig að -?
NÓRA: Að samlíf okkar gæti orðið hjónaband. Vertu sæll.
Hið undursamlegasta felst í því að þau bæði breytist þannig að samlíf þeirra
gæti orðið hjónaband. Þetta samband sem aðrir kalla hjónaband er ekki í
reynd hjónaband, líkt og samræður þeirra undanfarin átta ár hafa ekki verið
alvarlegar samræður. Vonbrigði Nóru með hjónaband sitt stafa einmitt af
skorti á alvarlegum samræðum. Hugmyndir hennar um hið undursamlega
hafa því ekki breyst. Þær felast ennþá í því að alvarleg orð verði notuð um al-
varleg viðfangsefni, að orðagjálfrinu ljúki, að það sem er gefið saman, nái
saman aftur. Það er hið undursamlega.35
Nokkur skilyrði alvarlegrar samrœðu
Þótt Nóra yfirgefi heimili sitt full efasemda ríkir ekki vonleysi í lok Brúðu-
heimilis. Upphafsskref alvarlegrar samræðu hafa verið stigin og leikritið hef-
ur komið orðum að nokkrum skilyrðum slíkrar samræðu. Fyrsta skilyrðið
ber á góma strax eftir að Nóra hefur kvartað undan skorti á alvarlegum sam-
ræðum:
Ég er ekki að tala um áhyggjur. Ég segi að við höfum aldrei setið saman
og reynt í alvöru að komast til botns í einu né neinu. (201)
Áherslan hvílir ekki á samræðunni sem slíkri eða mikilvægi þess að ræða
saman heldur á því að komast til botns í viðfangsefninu. í beinu framhaldi af
þessu svari Nóru ræða hjónin síðan um ástina. Og eftir langar og alvarlegar
samræður segir Helmer við Nóru: „Þú elskar mig ekki lengur." Og hún svar-
ar: „Nei, það er mergurinn málsins“ (205). Þannig fáum við strax dæmi um
hvernig hjón geta komist til botns í erfiðu máli. Nóra sér líka til botns í að-
stæðum Ranks þegar hún kveður hann með orðunum „Sofðu vel“. Alvarleg-
ar samræður Ranks og Nóru byggjast á gagnkvæmri viðurkenningu á
takmörkum mannlegs máls. Þegjandi samkomulag ríkir hjá þeim um að best
sé að hafa engin orð um það sem „verður að gerast“. Tvíræðnin gefur orðum
þeirra því aukna og nákvæmari merkingu en gerir þau ekki skoplega innan-
tóm líkt og á við í tilviki Helmers.
Langt mál mætti skrifa um skilyrði alvarlegrar samræðu eins og þau birt-
ast okkur í Brúðuheimili. Hér verða fáein orð látin duga. í alvarlegri samræðu
stýrir viðfangsefnið orðavalinu; orðin lúta umræðuefninu. Einstaklingurinn
TMM 2000:1
www.malogmenning.is
63