Són - 01.01.2009, Qupperneq 11
Á HNOTSKÓGI 11
Wordsworth, lofsöngur til þessa boðbera ljóssins dýrðar sem sóar
söngvaregni yfir jörðina.
En sé lævirkinn „himinskáld“, eins og þar segir, á það við á
gagntækari hátt um ljóðmælandann í miklu kvæði eftir Shelley sem
hér birtist á íslensku og stendur raunar fremst þessara þriggja ljóða.
„Skýið“ heitir ljóðið og það er sjálft skýið sem hefur orðið – og það
er orðmargt og mælskt, en allt ljóðskrúð er hér náttúruskrúð, og
sjónarsviðið er öll heimshvelfingin, síbreytileg og full af lífsanda,
þótt mannskepnan sé hvergi nefnd til sögunnar. Einar Benediktsson
færði okkur „Útsæinn“, en hér er það Helgi Hálfdanarson, í umboði
Shelleys, sem færir íslenskum lesendum skýið og það talar sannarlega
inn í íslenskt náttúrusamhengi – svona hefst fimmta erindið:3
Með perlum ég prýði og skarlati skrýði
ég skrúðvagna Sólar og Mána.
En eldfjöllin skyggjast og stjörnurnar styggjast,
er stormurinn þenur minn fána.
Frá strandfjalla nöf yfir hvítrokin höf
legg ég háreista brúarspöng,
og sólgeislaheld er hvelfing mín felld
yfir hnjúkanna súlnagöng.
Shelley verður að yrkisefni sá hverfulleiki veðrahjúpsins sem Íslend-
ingar þekkja einkar vel. Hinn heiði himinn, sú bláa hvelfing sem
skýið kallar sína „tómu gröf“, hverfur oft fyrr en varir, og þannig
lýkur ljóðinu, með orðum Shelleys og Helga:
um gröf mína tóma minn hlátur skal hljóma;
úr hellisins regnvota munna
sem barn ég fæðist, sem bleik vofa læðist
og brýt hana niður til grunna.
Þriðja ljóðið er „Ótti dauðans“ eftir John Keats, sem Helgi virðist hafa
haft sérstakar mætur á eins og fleiri sem hafa lagt sig eftir skáldskap
rómantísku stefnunnar. Helgi átti síðar eftir að þýða sum helstu ljóð
þessa boðbera fegurðar og angurværðar, til dæmis „Til næturgalans“
og „Gríska skrautkerið“ („Ode on a Grecian Urn“).
3 Helgi Hálfdanarson: „Þýdd kvæði“ (P. B. Shelley: „Skýið“), Tímarit Máls og menn-
ingar, 11. árg., 1.–2. hefti, 1950, bls. 39.