Són - 01.01.2009, Qupperneq 144
HELGI SKÚLI KJARTANSSON144
líklegt að stakt lýsingarorð eigi við fjarlægt nafnorð eins og nálægt og
hafa útgefendur vísunnar tekið þetta upp með ólíkum hætti.
Athyglisverð er skýring Magnúsar Finnbogasonar, sem mjög lagði sig
eftir lestri dróttkvæða: „Orðslægur karl (djöfullinn) er staddur hjá
Sturlu.“15 Þetta hygg ég sé hárrétt lesið enda rétt lýsing – hvort sem
átt er við kölska sjálfan eða Óðin sem fulltrúa hans. Og athugum að
slægur gat ekki aðeins merkt „lúmskur“ heldur „skæður, skaðvænn“,
sbr. slægan hest.
Skáldin höguðu máli sínu ógjarna svo að áheyranda yrði merking
vísunnar ljós jafnóðum. Íþrótt þeirra snerist um að setja hlustandann
í óvissu, jafnvel um margt í senn, en gefa honum síðan vísbendingar
um ráðningar, helst nær lokum vísufjórðungs eða -helmings. Fyrsta
línan, „Karl er staddur hjá Sturlu,“ á væntanlega alls ekki að vera
skiljanleg ein sér, enda mætti það fyrr vera kunnugleikinn að sjá strax
kölska (eða Óðin) í svo hversdaglegu orði. Nei, hér er gáta sem
skáldið opnar, hlustandinn bíður eftir lausn, eða vísbendingu öllu
heldur, og fær hana undir lokin: þetta er ekki hvaða „karl“ sem er
heldur „karl orðslægur“.
Jafnvel þetta er furðu knöpp vísbending fyrir lausavísu sem vænt-
anlega hefur átt að vera nokkurn veginn skiljanleg við fyrstu tilraun.
Kenningar voru að vísu oft langsóttari en þetta, en þær féllu líka í
kerfi sem fólk átti að kunna, vita t.d. hvernig vatn (og alls konar orð
og orðasambönd um vatn, vötn eða sjó) var notað til að tákna gull og
þar fram eftir götunum. Af Óðinskenningum var líka til fjölslungið
kerfi en ekki fellur „orðslægur karl“ inn í það.
Ef herflokkarnir í Deildartungu 1180 voru hins vegar vanir heitinu
rægikarl um kölska (og þá hugsanlega um Óðin líka þegar hann kom
fram í þess háttar hlutverki), þá verður skiljanlegt hvernig þeim var
ætlað að kveikja á perunni þegar opnunin „karl …“ lokaðist loksins
sem „karl … orðslægur“. Hvaða karl átti þetta eiginlega að vera? Jahá,
rægikarlinn.
Vísa Jóns skálds er þannig vísbending – engin fullnaðarsönnun en
viss röksemd þó – um að orðið rægikarl í merkingunni „kölski“ sé
u.þ.b. 500 árum eldra en fyrsta skjalfesta dæmið. Við getum líkt þessu
dæmi í Sturlungu við steingerving sem er raunar ekki af risaeðlu
heldur af fótspori hennar. Þá ætti hún samt að hafa verið til.
15 „Vísnaskýringar“, Sturlunga saga I, útg. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og
Kristján Eldjárn (Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946), bls. 583.