Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 9
Loðvík helgi sem einstaklingur og
fyrirmynd í sagnaritun 13. aldar
JACQUES LE GOFF
I verki sem ég hef nýlokið við að semja um Loðvík hinn helga1 velti ég því íyrir
mér hvort hægt sé að nálgast hann sem einstakling. Ég spurði mig að því hvort
samfélagið sem hinn helgi konungur tilheyrði hefði haft áhuga á sérkennum hans
sem einstaklings; hvort ævisagnaritarar hans og vitni kirkjudómstólsins sem skar
úr um að hann væri helgur maður, hefðu búið yfir hugtakaforða til að gera grein
fyrir þeim; hvort tíðarandinn og eftirmæli um fólk gerðu yfirleitt ráð fyrir því að
einstaklingurinn væri sérstakur, einnig sá sem sat í efsta þrepi valdastigans. Eða
þá hvort einhver hugmynd um einstaklingsbundna skapgerðarþætti lægi að baki
því hvernig menn skynjuðu, skilgreindu og skýrðu sjálfa sig eða aðra, og þá
sérstaklega söguhetjur ævisagna og helgisagna.
Það kann að virðast heldur hvimleið árátta hjá sagnfræðingum að leita uppruna
hugmyndarinnar um einstaklinginn eða aukinnar áherslu á hana á ólíkum
skeiðum mannkynssögunnar. Svo gæti farið að þessi þráhyggja ómerkti viðleitni
fræðimanna til að skilja uppruna og þróun þessarar hugmyndar í sögunnar rás.
Hér er samt um raunverulegt og verðugt viðfangsefni að ræða, sem krefst þess að
stigið sé varlega til jarðar og gáð undir hvern stein. Við skulum láta okkur nægja
að reifa tvo eða þrjá þætti sem höfða til reynslu og almennrar skynsemi.
Eins og títt er um fyrirbæri sem teygja sig yfir langt tímaskeið í mannkynssög-
unni, hefur hugmyndin um manninn sem einstakling ekki þróast eftir beinni
braut eða með jafnri stígandi.2 Það getur verið mjög mismunandi hvað svarar til
hugmyndar okkar um einstaklinginn á öðrum tíma eða í öðru samfélagi. Einstakl-
ingurinn í anda Sókratesar eins og forngríska heimspekin gerði sér í hugarlund,
hinn kristni maður með sína einstaklingsbundnu sál, Endurreisnarmaðurinn með
sitt virtú, hin rómantíska eða rousseauíska hetja - svo tekin séu örfá dæmi úr
vestrænni menningarsögu - þessar manngerðir eru ekki einvörðungu ólíkar,
heldur falla þær ekki undir sama einstaklingshugtak, sérstaklega þegar kemur að
sambandi einstaklingsins við samfélagið, sem elur hann af sér. Er hægt að hugsa
sér ólíkari hugmyndir um einstaklinginn en þær sem búa að baki borgríki klassíska
tímans, Guðsríki Agústínusar, Þelmuklaustri Rabelais eða Utópíu Tómasar More,
Genfarborg Kalvíns, Port-Royal-klaustri eða félagsskap Jesúíta, svo aðeins séu
1 Saint-Louis, París, Le Seuil, 1996. - Loðvík IX, f. 1214, var konungur Frakklands frá 1226 til
1270. Hann var tekinn í dýrlingatölu árið 1297.
2 í bóksinni Lapersonne burnaine au Xllle siecle, París, Vrin, 1991, fjallar E.H. Weber einnig um
hina skrykkjóttu sögu hugtaksins „persóna“. Ég læt alveg vera að fjalla um þetta hugtak hér, þar
sem ég tel að á miðöldum hafi það verið einskorðað við heimspeki og guðfræði.