Skáldskaparmál - 01.01.1997, Blaðsíða 247
Freyfaxahamarr
245
blæddi út. Einhverja ofangreindra aðferða var eðlilegt að viðhafa ef neyta skyldi
kjötsins af hestinum í blótveislu (BE 1962, 166 o.áfr.; 170 o.áfr.).
Indverska lýsingin sem íyrr var rakin er engan veginn samsvörun við það sem
kann að hafa gerst við hestsfórnir í norðanverðri Evrópu til forna en skyldleika er
þó að finna. Má fyrst nefna að indverski fórnarhesturinn var hlutaður sundur eftir
sérstökum formála, en í norrænum heimildum örlar á leifum slíkrar aðferðar.
Stundum bregður fyrir hestshaus í trúarlegu samhengi, í Hákonar sögu góða var
það hrosslifrin og í Völsaþætti vingullinn (Flat. II, 441-442). Þá má benda á að
indverski fórnarhesturinn rásaði um í 12 mánuði og leiðir það hugann að
hrossunum 12 sem fylgdu Freyfaxa. Indverski fórnarhesturinn mátti ekki ata sig
auri né vaða í óhreinu vatni og minnir það á að einn þáttur í alvarlegu afbroti
Einars var hve mjög hann óhreinkaði Freyfaxa. Þegar Freyfaxi kom að dyrum á
Aðalbóli var til þess tekið hve óþokkalega hann var útleikinn og Hrafnkell sagði
við hann: „Illa þykkir mér at þú ert þannig til görr, fóstri minn . . .“ (Hrafnkels
saga Freysgoða 1959, 7; R&S 1974, 170; WK 1936, 288).
Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að frásögn Hrafnkels sögu af tortímingu
Freyfaxa er að mörgu leyti frábrugðin því sem vitað er um hestsfórnir í norrænum
sið, enda þótt sum atriði séu sviplík. Aður en lengra er haldið er rétt að draga fram
það sem vitað er um förgun hrossa á Norðurlöndum eftir að kristni var lögtekin.
V
Með kristninni breyttist mjög afstaða manna á Norðurlöndum til hesta og
hrossakjöt hvarf af matborðinu. Þegar neysla hrossakjöts var bönnuð varð hins
vegar nauðsynlegt að eyða hrossskrokkum með öðru móti. I fyrrnefndu riti um
slátrunaraðferðir dregur Nils Fid saman miklar heimildir um það hvernig hestum
var fargað eftir kristnitöku og hvernig skrokkum af sjálfdauðum hestum var
komið fyrir á einskonar sorphaugum. Ef hesturinn drapst á afviknum stað,
einkum í votlendi, þá var ekkert aðhafst og skrokkurinn fékk að rotna á sínum
stað. Dræpist hesturinn hins vegar þar sem skrokkurinn var til óþæginda þá var
hræinu fyrirkomið, annaðhvort dregið í vatn eða því varpað fram af hömrum.
I sama riti nefnir Nils Fid einnig mörg dæmi um hvernig hestum hafi verið
tortímt á síðari öldum með því að hrinda þeim eða hrekja þá fyrir björg. Þar er
ekki um fórnarathafnir að ræða, heldur eingöngu dráp. Er þess getið sérstaklega,
að víða hafi engum áhöldum verið beitt við förgun hrossa, heldur hafi þeim verið
steypt eða þau fæld fyrir björg. A einum stað er talað um hamar sem var allt að
30 metra hár. Stundum var vatn undir hömrunum, en oft einnig grjóturð, rojse
eða hreysi. Ornefni í Noregi eru til vitnis um þessa aðferð við tortímingu hrossa
svo sem Ryssebergje, Marehedlo, Hestberget og Marahamaren (NF 1923, 181—
183).
Hamarinn Marahedlo er á Hörðalandsskaganum skammt frá Bergen. Um
hann segir NF í áðurnefndu riti: